Íbúar beðnir að gæta hófs í orðum og æði

Neskaupstaður.
Neskaupstaður. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Lögreglan á Austurlandi hvetur íbúa Neskaupstaðar til að gæta hófs í orðum og æði á samfélagsmiðlum.

Hvatningin birtist í tilkynningu lögreglu þar sem vísað er til fréttaflutnings af meintu broti á sóttvarnalögum í bænum.

Stöðinni lokað og hún sótthreinsuð

Héraðsmiðillinn Austurfrétt birti fyrr í kvöld frétt þar sem fram kom að Olís-stöðinni í Neskaupstað hefði verið lokað. Lögreglunni hefðu borist ábendingar um að einstaklingur, sem ætti að vera í einangrun vegna kórónuveirusmits, hefði komið inn á stöðina. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að loka stöðinni og sótthreinsa hana.

Segist lögregla hafa rannsakað málið, „og er ekkert sem bendir til að um sóttvarnarbrot hafi verið að ræða“.

„Málið telst því upplýst og hvetur lögregla íbúa til að gæta hófs í orðum og æði á samfélagsmiðlum vegna þessa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert