Fólk ekki kallað til messu í þjóðkirkjunni

Hallgrímskirkja.
Hallgrímskirkja. mbl.is/Ómar Óskarsson

Opinberar messur munu ekki hefjast í þjóðkirkjunni á morgun líkt og í kaþólsku kirkjunni. Þetta staðfestir Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu.

Þegar næsta reglugerð yfirvalda verður sett fram, sem tekur við af þeirri sem tekur gildi á morgun, verður sest niður og staðan tekin á nýjan leik. „Það er ekkert rými til þess að kalla fólk til messu,“ segir Pétur um stöðuna sem er uppi núna og á við sóttvarnareglur. 

Í ljósi þess að samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar hækka í 20 manns ákvað kaþólska kirkjan að hefja opinberar messur á morgun. Í tilkynningu sagðist hún einnig vona að hægt verði að leyfa 100 manns við venjulega messu í ljósi þess að 100 manns mega núna vera viðstaddir sálumessu (jarðarför).

„Við höfum enga skoðun á því hvernig kaþólska kirkjan metur hlutina,“ segir Pétur, spurður út í tilkynningu kirkjunnar. „Við höfum metið hlutina þannig að við treystum stjórnvöldum og þeim sérfræðingum sem hafa verið að leggja línurnar þannig að við sigrumst á þessum vágesti,“ bætir hann við og á við kórónuveiruna.

„Fyrst og fremst hefur það skipt okkur miklu máli að vera bakhjarl sóttvarnayfirvalda og stjórnvalda.“

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum.
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum.

Hugað verði að fermingum vorsins

Fram kemur í bréfi frá Solveigu Láru Guðmundsdóttur, starfandi biskupi Íslands, að vonandi verður hægt og sígandi hægt að hefja hefðbundið kirkjustarf á nýjan leik. Unnið er að því með sóttvarnalækni að hugað verði sérstaklega að fermingum vorsins við undirbúning næstu reglugerðar.

Varðandi fermingarnar segir Pétur að mikilvægt sé að þegar næsta reglugerð komi fram verði leiðbeinandi reglur til kirkjunnar og foreldra, þannig að hlutirnir verði ekki á gráu svæði.

Í tilkynningunni segir einnig: „Stóru fréttirnar í nýju reglugerðinni eru að fjöldi við útfarir má að hámarki vera 100 manns frá og með morgundeginum, 13. janúar. Við ítrekum auðvitað að gætt sé að öllum sóttvörnum við þær viðkvæmu athafnir, 2 m reglu og grímuskyldu.“

Kirkjulegt starf með börnum á leik- og grunnskólaaldri má hefjast með þeim takmörkunum sem reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar frá 21. desember setur en hún gildir út febrúarmánuð.

Þær reglur um kórastarf sem áður hafa verið kynntar, gilda með þeim rýmkunum sem hafa núna verið auglýstar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert