„Nú ríður á að horfa til framtíðar“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, stýrði utanríkisráðherrafundi EFTA-ríkjanna innan EES í dag þar sem fundað var með Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB gagnvart Bretlandi.

Á fundinum kynnti Barnier viðskipta- og samstarfssamning Evrópusambandsins og Bretlands sem lokið var við skömmu fyrir áramót. Enn eru nokkur atriði útistandandi en segja má að smiðshöggið hafi verið rekið á útgöngu Bretlands úr ESB með samningnum, að því er kemur fram í tilkynningu.

Guðlaugur Þór óskaði Barnier til hamingju með samninginn og fagnaði því að sátt hefði náðst. Þó er ljóst að samningsaðilar muni áfram móta og þróa áframhaldandi samstarf og lagði Guðlaugur Þór áherslu á virkt samtal milli EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins í þeirri vinnu.

„Það var afar gagnlegt að fá innsýn frá fyrstu hendi inn í samninginn og ferlið. Við vitum að þetta samkomulag var erfitt í fæðingu en nú ríður á að horfa til framtíðar og vinna sameiginlega að því að tryggja gott samstarf Bretlands, Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES,“ segir Guðlaugur Þór í fréttatilkynningunni.

Michel Barnier.
Michel Barnier. AFP

Gengur lengra en almennur samningur

Samningurinn gengur nokkru lengra en almennur fríverslunarsamningur gerir alla jafna. Auk hefðbundinna málaflokka sem lúta að fríverslun, s.s. vöru- og þjónustuviðskipti, tekur hann til þátta eins og samstarfs um samhæfingu almannatryggingakerfa, innri öryggismála, sjávarútvegsmála (fiskveiðiheimilda), loftferða og rannsókna.

Bráðabirgðafríverslunarsamningur Íslands og Bretlands tók gildi 1. janúar og er ætlað að brúa bilið þar til nýr heildstæður fríverslunarsamningur tekur gildi. Lokið var við loftferðasamning fyrir áramót sem og samstarfsyfirlýsingu á sviði sjávarútvegsmála. Ísland og Bretland eiga einnig í viðræðum á öðrum mikilvægum sviðum á borð við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, dvalarleyfi ungmenna, rannsóknir og menntun, flugöryggismál, gagnkvæma viðurkenningu á ökuskírteinum og innra öryggi.

mbl.is