Milljóna sekt fyrir rangt kaupverð á Land Rover

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu til að greiða tæpar 5,3 milljónir króna í sekt fyrir tollalagabrot með því að hafa í júní 2019 við innflutning á Land Rover frá Bretlandi til Íslands með Bakkafossi ranglega tilgreint íslenskum tollayfirvöldum kaupverð bifreiðarinnar.

Í aðflutningsskýrslu sagði hún kaupverð bifreiðarinnar vera 20 þúsund pund í stað hins raunverulega kaupverðs sem var 35.700 pund í þeim tilgangi að koma sér hjá greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð um 2,6 milljóna króna.

Konan neitaði sök og hélt því fram að greiðsla hennar á 14.700 breskum pundum til bílasölunnar, sem hafði milligöngu um viðskiptin, hafi átt að vera greiðsla fyrir hjólhýsi sem hún hafi ætlað að kaupa en ekki orðið af. Hún sagði að 14.700 bresku pundin séu enn þá í vörslu viðtakandans í Bretlandi og hún hafi ekki viljað fá þá endurgreidda vegna gengisbreytinga og þá geti verið að hún ætli að flytja til Bretlands.

„Framburður ákærðu um það að hún hafi ákveðið að geyma 14.700 bresk pund, sem er töluverð fjárhæð, hjá ótengdum aðila í Bretlandi nú í meira en eitt og hálft ár þykir með ólíkindablæ. Þá hefur ákærða ekki gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna hún hafi fengið bifreiðina keypta fyrir um helming af ásettu verði og engin gögn styðja þá fullyrðingu hennar,“ segir í dóminum.

Konan var dæmd til að greiða sektina til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæta ella fangelsi í 90 daga. Hún var einnig dæmd til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns og ferðakostnað. Upphæðin nemur um 814 þúsund krónum.

mbl.is