Öll plön ganga eftir

Lögreglumenn voru meðal þeirra sem bólusettir voru í dag.
Lögreglumenn voru meðal þeirra sem bólusettir voru í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bólusetning með fyrsta skammti bóluefnis Moderna við kórónuveirunni gekk mjög vel að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í dag voru 400 manns bólusettir; aðallega sjúkraflutningamenn, lögreglumenn og starfsfólk í farsóttarhúsi. Í næstu viku hefst svo fyrsti áfangi seinni bólusetningar þegar íbúar hjúkrunarheimila verða bólusettir öðru sinni.

„Þetta hefur gengið mjög vel. Við byrjuðum klukkan 13 í dag og við erum komin langleiðina, síðustu hóparnir eru að koma í hús núna,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Í gær komu til landsins 1200 skammtar af bóluefni Moderna og voru þeir notaðir í dag. Góð stemning var meðal þeirra sem voru bólusettir og var fólk glatt að fá loksins fyrstu sprautuna að sögn Ragnheiðar.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

Öll plön ganga eftir

Spurð hvort áætlanir um hraða framkvæmd bólusetninga hafi gengið eftir segir Ragnheiður að svo virðist vera. Nú sé verið að prófa það fyrirkomulag sem fyrir lá áður en bóluefni kom til landsins.

„Já, okkur sýnist öll plön ganga eftir. Við erum að nota þetta sem tilraun fyrir næstu bólusetningar og þær mælingar ganga eftir. Við tökum svo stöðufund í lok dags og berum saman bækur okkar.“

Næstu skammtar bóluefna koma í næstu viku, þá frá Pfizer.

„Þá munum við einblína á eldri borgara og reyna að ná til þeirra sem eru í dagþjálfun og heimahjúkrun og til þeirra sem búa í íbúðakjörnum sem hugsaðir eru sem eins konar hjúkrunarheimili.

Svo á fimmtudag munum við hefja aðra bólusetningu þeirra sem áður hafa fengið fyrstu sprautuna. Þá munu þeir íbúar hjúkrunarheimila sem áður hafa verið bólusettir verða ónæmir að fullu.“

Fólk var að vonum glatt að fá fyrstu sprautuna.
Fólk var að vonum glatt að fá fyrstu sprautuna. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert