Fjögur smit innanlands

Sýnataka vegna Covid-19 fer fram við Suðurlandsbraut.
Sýnataka vegna Covid-19 fer fram við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls greindust fjórir með kórónuveirusmit innanlands í gær og var helmingur þeirra í sóttkví. Öll smitin greindust við einkennasýnatöku. Tvö virk smit greindust við landamærin en tveir bíða niðurstöðu mótefnamælingar. 

Alls voru tekin tæplega 900 sýni innanlands í gær en 410 á landamærunum. Nú eru 169 í einangrun á Íslandi og hefur fjölgað um 5 á milli daga. Í sóttkví eru 228 og í skimunarsóttkví eru 1.853. Nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur er 18 en 28,1 á landamærunum. 

Í gær var greint frá því að 10 hefðu greinst með smit á landamærunum en 14 biðu mótefnamælingar og tveir hefðu verið með mótefni. Í morgun hefur komið fram á covid.is að 12 virk smit hefðu greinst við fyrri sýnatöku í fyrradag og fjögur þá síðari. Sjö voru með mótefni og þrír bíða enn niðurstöðu mótefnamælingar. Þannig að virk smit reyndust vera 16. 

16 börn eru með smit í dag og líkt og áður eru flest smit í aldurshópnum 18-29 ára eða 56. Á fertugsaldri eru síðan 42 með Covid-19.

 Líkt og í gær eru 112 í einangrun á höfuðborgarsvæðinu en á Suðurnesjum og á Suðurlandi eru 17 smit í hvorum landshluta. Á Austurlandi, Norðurlandi eystra og Vesturlandi eru smitin nú 5 á hverju svæði. Á Vestfjörðum eru fjórir með Covid-19 og tveir á Norðurlandi vestra.

mbl.is