Áhrif á ófjárhagsleg lífsgæði metin á 75 milljarða

Ríkisstjórnin boðaði auknar viðspyrnuaðgerðir í Hörpu í nóvember.
Ríkisstjórnin boðaði auknar viðspyrnuaðgerðir í Hörpu í nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhrif Covid-19 faraldursins á ýmis ófjárhagsleg lífsgæði á síðasta ári eru metin 75,4 milljarðar í niðurstöðu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnarmálum. Þetta bætist við 117 milljarða kostnað vegna sjálfvirks viðbragðs skattkerfa og atvinnuleysistrygginga og 104 milljarða kostnaðar í beinar aðgerðir. Lokaskýrsla var birt á vef ráðuneytisins í dag.

Sóttvarnir hér á heildina litið minna íþyngjandi en í flestum OECD-ríkjum

Þá segir í skýrslunni að á heildina litið hafi innlendar sóttvarnir verið minna íþyngjandi hér á landi en í flestum OECD-ríkjum. Þá hefur á heildina litið tekist betur en víðast hvar að halda leik- og grunnskólum opnum. Þróun faraldursins síðustu vikur hafi einnig verið mun hagstæðari hér en meðal flestra OECD-ríkja en aðeins þrjú þeirra eru nú með lægra nýgengi smita, öll í Asíu og Eyjaálfu.

Fram kemur að aukin reynsla af samspili faraldursins, sóttvarna og efnahagslegra áhrifa sýni að lykilatriði sé að koma í veg fyrir að faraldurinn fari úr böndunum. „Óheftur faraldur sligar heilbrigðiskerfið og veldur umtalsverðum neikvæðum efnahagslegum áhrifum þar sem fólk dregur óháð sóttvörnum úr ýmissi neyslu af ótta við smit og útbreidd veikindi trufla margs konar nauðsynlega starfsemi. Sóttvarnaraðgerðir þurfa að vera tímanlegar og nægjanlegar til að skila tilætluðum árangri. Ella er hætt við að það þurfi að beita mun meira íþyngjandi aðgerðum síðar sem hafa til skemmri tíma litið neikvæðari efnahagslegar afleiðingar í för með sér,“ segir í skýrslunni. Tekið er fram að samkvæmt skoðunarkönnun virðist hafa tekist þokkalega til í þessu efni, þó að sveiflukennt eðli faraldursins valdi því að ekki verði hægt að ná fram algjörum fyrirsjáanleika, en eins mikill skilyrtur fyrirsjáanleiki og kostur er á er mikilvægur til að draga úr neikvæðum efnahagsáhrifum.

„Rök fyrir því að gera fremur meira en minna“

Þegar kemur að efnahagslegum aðgerðum hins opinbera kemur fram að rata þurfi meðalveg fórnarskipta á milli þess að gera nægilega mikið til að forða tjóni sem bitnar á efnahagsbatanum, en ekki svo mikið að komið er í veg fyrir nauðsynlega tilfærslu framleiðsluþátta frá rekstri sem ekki stenst í venjulegu árferði til nýrrar vænlegrar starfsemi.

Þó erfitt sé að meta hvenær farið er of stutt og hvenær sé farið of langt segja skýrsluhöfundar að betra sé að fara lengra í þeim efnum en of skammt. „Það eru rök fyrir því að gera fremur meira en minna við að vernda framleiðslugetu og ráðningarsamband meðan þjóðarbúið er á botninum en endurmeta þann stuðning um leið og efnahagsbatinn fer á skrið og neyslu- og framleiðslumunstur næstu framtíðar skýrast betur,“ segir í skýrslunni.

Kemur fram að umfang aðgerðanna sé meira á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum „og nærri því sem mest gerist meðal ríkja með umfangsmikið sjálfvirkt viðbragð skattkerfis og atvinnuleysistrygginga.“

Dýpri kreppa án virkra aðgerða

Varað er við því að án virkra aðgerða verði aukið og þrálátara langtímaatvinnleysi afleiðing kreppunnar og neikvæðari áhrif á efnahagsbata og langtímahagvöxt. „Vísbendingar um fremur dræma þátttöku og ásókn í virk vinnumarkaðsúrræði til þessa vekur spurningar um hvort ekki þurfi að auka upplýsingar og ráðgjöf til bæði einstaklinga og fyrirtækja um þau úrræði sem í boði eru og hvetja til aukinnar virkni og þátttöku í þeim.“

Tekið er fram að vegna góðs árangurs í sóttvörnum hafi áhrif faraldursins á innlend efnahagsumsvif, meðal annars einkaneyslu, verið minni hér á landi en víða annars staðar. Hins vegar séu áhrifin á ferðaþjónustuna mikil og skipar það Íslandi í þann hóp þróaðra ríkja þar sem efnahagsleg áhrif faraldursins eru hvað mest.

Beina augum sínum að fyrirkomulagi á landamærum

Tekur hópurinn undir að breyta þurfi fyrirkomulagi á landamærum, sem taka á gildi á vormánuðum og feli í sér að liðkað yrði fyrir komum ferðamanna frá löndum þar sem tök eru á farsóttinni. Þannig geti ferðaþjónustan boðið upp á meiri fyrirsjáanleika við sölu ferða til Íslands á komandi mánuðum án þess að of mikil áhætta sé tekin varðandi sóttvarnir

Mótvægisaðgerðir minnka samdrátt úr 8% í 5% af VLF

Starfshópurinn fékk Analytica til að greina samdrátt efnahagsumsvifa vegna faraldursins á síðasta ári og er hann metinn á 8% án mótvægisaðgerða ríkisins. Sé tekið mið af þeim er samdrátturinn um 5%. Beinar mótvægisaðgerðir ríkisins eru taldar nema samanlagt um 7% af landsframleiðslu á árunum 2020 og 2021.

Vísað er til þess að gert sé ráð fyrir 275 milljarða halla á síðasta ári samkvæmt fjárlögum. Þá geri fjárlög þessa árs ráð fyrir 326 milljarða halla. Sem fyrr segir eru áhrif faraldursins á sjálfvirkt viðbragð skattkerfa og atvinnuleysistrygginga upp á 117 milljarða, eða 4,1% af landsframleiðslu og hins vegar 104 milljarða, eða 3,6% af landsframleiðslu, í beinar aðgerðir.

Ófjarhagsleg lífsgæði metin til fjár

Hópurinn fékk einnig Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, til að meta til fjár áhrif faraldursins og sóttvarna á ýmis ófjárhagsleg lífsgæði á Íslandi. Var spurningakönnun á vegum Gallup lögð fyrir 1.760 einstaklinga til að ná mynd á þessi áhrif. Er þarna m.a. horft til áhrifa á heilsu, sem meta má til fjár með aðferðum hagfræðinnar. Eru heildaráhrifin 75,4 milljarðar, eða um 2,5% af landsframleiðslu.

Má skipta þessum áhrifum í fjóra liði:

  • Áhrif sóttvarnaaðgerða innanlands og þeirra takmarkana sem settar hafa verið á hegðun fólks. Er virði þeirra lífsgæða sem almenningur fer á svig við vegna takmarkanna metið með aðferð tjáðs vals/skilyrts verðmætamats. Með þessari aðferð er velferðartap vegna takmarkana metið á 45,9 milljarða á síðasta ári.
  • Áhrif af sóttkví og einangrun á velferð þeirra einstaklinga sem þurfa að sæta þessum takmörkunum. Þessi áhrif eru metin með aðferð afhjúpaðs vals þar sem meðallaunatekjur eru notaðar sem áætlað meðaltímavirði einstaklinga. Þetta velferðartap er þannig metið 25,2 milljarða frá upphafi faraldursins.
  • Áhrif á heilutap vegna Covid-19 á velferð þeirra sem fyrir slíku verða. Þetta er áætlað á grundvelli lífsgæðaveginna lífára og sannreynt með tekjuuppbótaraðferð. Velferðartapið sem í þessu felst er metið 2,9 milljarða.
  • Áhrif þess skaða sem felst í ótímabærum andlátum. Þetta er metið á grundvelli lífsgæðaveginna lífára og eru áhrifin metin 1,4 milljarða fram til þessa.

Til viðbótar við þessi fjögur atriði er bent á áhrif vegna óvissunnar sem faraldurinn valdi, svo sem ótta við smit, óháð beinum áhrifum sem raungerast í lífi einstaklinga. Til eru gögn sem mögulegt er að nota til að meta þessi áhrif til fjár, en það reyndist ekki unnt að svo stödu. Þá séu einnig áhrif á börn, meðal annars vegna breytts fyrirkomulags menntunar, en erfitt kunni vera að meta þetta til fjár.

Tekið er fram að þegar álitamál hafi verið uppi um aðferðafræði var almennt stuðst við þær tölur sem veita varfærið mat.

Starfshópinn skipa þau Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

mbl.is