Ingibjörg Sólrún til Íraks

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið skipuð staðgengill erindreka aðalritara Sameinuðu þjóðanna í Írak (UNAMI). Þar mun hún fara fyrir pólitískri deild sveitarinnar og jafnframt hafa kosningastarf á sinni könnu.

Ingibjörg tekur við starfinu í mars en skipunin er til eins árs í senn, líkt og aðrar skipanir af sama meiði innan Sameinuðu þjóðanna. Hún mun hafa aðsetur í Bagdad, höfuðborg Íraks.

Í samtali við mbl.is segir Ingibjörg að verkefnið sé í senn áhugavert og krefjandi. „Það verður spennandi að fylgjast með þessum málum enda kosningar í júní. Öryggisástandið í landinu hefur oft verið verra og tækifærin eru mikil,“ segir hún.

Bráðabirgðastjórn situr nú við völd í Írak eftir að ríkisstjórn landsins féll í lok árs 2019, en kjörsókn hafði aðeins verið 44% í kosningum 2018 þegar ríkisstjórnin komst til valda.

„Það sem Sameinuðu þjóðirnar eru að gera þarna er að aðstoða stjórnvöld við að skipuleggja kosningarnar og undirbúa jarðveginn, en þetta er allt á forsendum Íraka sjálfra,“ segir Ingibjörg. Hún segir mikið verk að vinna í landinu og helsta markmiðið að aðstoða stjórnvöld við að auka traust á kosningum sem hafi bersýnilega ekki verið til staðar síðast. „Fólk þarf að treysta niðurstöðum kosninganna.“

Spennandi að vera úti á akrinum

Ingibjörg Sólrún þekkir vel til málaflokksins enda var hún yfirmaður lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE frá 2017-2020 og hafði þar kosningamál á sínu borði. Aðspurð segist hún þó telja að starfið í Írak verði meira krefjandi en í Evrópu.

„En um leið finnst mér þetta meira spennandi því þú ert að vinna á akrinum, í beinu sambandi við umbjóðendur.“

Ingibjörg flytur út í byrjun mars. Aðspurð segir hún að það leggist vel í hana að flytja úr Vesturbænum í Reykjavík og yfir á fjarlægar slóðir. Ingibjörg hefur enda reynslu af Miðausturlöndum, en hún var um tveggja ára skeið yfirmaður hjá UN Women í Kabúl, höfuðborg Afganistan og þrjú og hálft ár í Istanbul. „Ég hef verið í Afganistan þannig að ég veit nokkurn veginn hvað ég er að fara út í. Ég held að Bagdad sé betri heldur en Kabúl út frá öryggisástandi.“

mbl.is