„Í raun allt orðið sjálfvirkt á bak við tjöldin“

Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis
Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis mbl.is/RAX

Reynsla heilbrigðiskerfisins af rafrænum lausnum sem ráðist hefur verið í vegna Covid-19 er ómetanleg að sögn sérfræðings. Hún verður meðal annars nýtt til þess að einfalda bókun leghálsskimana í nánustu framtíð. Hann segir að helsti lærdómurinn sem draga megi af rafrænu lausnunum sé sá að treysta skjólstæðingnum.

Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis, segir að miklar breytingar hafi orðið á þeim rafrænu lausnum sem gripið hafi verið til hjá heilsugæslunni vegna faraldursins. Nú sé ýmislegt orðið sjálfvirkt sem var það ekki áður og þannig hafi gríðarleg vinna sparast.

Ingi Steinar er á meðal þeirra sem flytja erindi á Nýsköpunardegi hins opinbera sem haldinn er á morgun. Hér má finna dagskrá hans. Viðburðurinn er einnig á Facebook

Rakningarteymið og göngudeildin fá strax skilaboð

Í fyrstu bylgju faraldursins fór álagið á heilsugæsluna fljótt að aukast enda mun meira um skimanir en fólk átti að venjast. Þá tók hver heilsugæslustöð á móti sínum skjólstæðingum í sýnatöku en nú fer nánast öll sýnataka á höfuðborgarsvæðinu fram á einum stað, við Suðurlandsbraut.

„Þarna á bak við er tölvukerfi sem heilsugæslan notar til að taka sýnin. Fólk fær strikamerki í tölvupósti og sýnir það og vegabréfið sitt þegar sýni eru tekin. Þau eru merkt og þetta er allt mjög sjálfvirkt,“ segir Ingi Steinar.

Upplýsingagjöfin í kringum sýnatökuna er þannig orðin alveg sjálfvirk. Tímabókun fer fram í gegnum Heilsuveru og berast niðurstöður í sms-skilaboðum. Þegar einhver greinist smitaður fá rakningarteymið og Covid-göngudeild Landspítala strax upplýsingar um það. „Þetta er í raun allt orðið sjálfvirkt á bak við tjöldin.“  

Frá skimun vegna Covid-19. Þegar breytingar urðu á landamærunum og …
Frá skimun vegna Covid-19. Þegar breytingar urðu á landamærunum og fólk var skyldað í sóttkví við komuna til landsins jókst álagið á heilsugæsluna aftur verulega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rauðglóandi línum bjargað með tækninni

Sú breyting hefur einnig orðið að nú þarf fólk ekki að hringja í sína heilsugæslustöð til þess að fá tíma í sýnatöku heldur pantar það einfaldlega tíma í gegnum heilsuveru. Þannig sparast vinna þeirra sem taka á móti símtölum og finna tíma fyrir fólk í sýnatöku.

Þegar breytingar urðu á landamærunum og fólk var skyldað í sóttkví við komuna til landsins jókst álagið á heilsugæsluna aftur verulega.

„Fólki var sagt að hringja á heilsugæslustöðina og láta vita [af sóttkvínni] en þá voru náttúrulega allar símalínur heilsugæslustöðvanna rauðglóandi og allir uppteknir við að taka á móti þeim símtölum. Sólarhring síðar var komin inn leið á Heilsuveru fyrir fólk til að skrá sig í sóttkví og það sparaði náttúrulega alveg gífurlega vinnu,“ segir Ingi Steinar.

Þá jók það aftur álagið þegar fólk sem kom til landsins þurfti að fá vottorð um að það hefði verið í sóttkví.

„Þá fór fólk að hringja á heilsugæslustöðvarnar sem gáfu út vottorð í hundraðavís. Þá gerðum við sjálfsafgreiðslu fyrir það. Eitt rak annað í þessu í raun. Stærsta stökkið í þróuninni kom þegar landmæraskimunin byrjaði um miðjan júní. Þá sáum við fyrir okkur að það þyrfti að taka þetta upp á næsta stig vegna þess að það þurfti að skima allt að 1.000 manns á klukkutíma. Þá þurftum við að finna nýjar leiðir. Þarna komu líka til landsins útlendingar sem höfðu ekki aðgang að Heilsuveru,“ segir Ingi Steinar.

Frá skimun við Suðurlandsbraut. Þar fer nánast öll skimun og …
Frá skimun við Suðurlandsbraut. Þar fer nánast öll skimun og sýnataka vegna Covid-19 á höfuðborgarsvæðinu fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kerfið þróast með breyttum aðgerðum

Þá voru útbúnar forskráningarsíðurnar Heimkoma.covid.is og visit.covid.is.

„Í gegnum tíðina hefur þetta kerfi breyst mjög mikið. Þetta kerfi hefur þróast með breyttum aðgerðum á landamærum og breytinga á því hvaða lönd eru talin örugg,“ segir Ingi Steinar.  

Hann segir að vegna breytinga sem hafa verið gerðar á fyrirkomulagi skimana hafa heilsugæslustöðvar náð að starfa nánast ótruflaðar, þ.e. án álagsins sem Covid-skimunum fylgir.

„Í fyrstu bylgju var fólk á bílastæðum og í bílakjöllurum að taka sýni fyrir sína sjúklinga á sinni heilsugæslustöð. Þetta snerist svolítið um það í fyrstu bylgjunni. Hver einasta heilsugæslustöð var í rauninni að drukkna í Covid-verkefnum en náði kannski ekki alveg eins að sinna [öðrum verkefnum]. Þegar þetta er allt orðið svona sjálfvirkt og sýnatakan er bara á einum stað hér á höfuðborgarsvæðinu þá hefur þetta miklu minni áhrif á reksturinn.“

Frá bólusetningu framlínustarfsmanna í lögreglu og slökkviliði. Sama kerfi og …
Frá bólusetningu framlínustarfsmanna í lögreglu og slökkviliði. Sama kerfi og notað er fyrir skimanir er nú notað í bólusetningum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sama kerfi nýtt í bólusetningum

Sama tölvukerfi og hefur verið nýtt til þess að hafa umsjón með skimunum er nú notað til þess að hafa yfirsýn með bólusetningum.  

„Við erum í raun að prufukeyra það á þessum viðbragðshópum, heilbrigðisstarfsmönnum, lögreglu, slökkviliðsstarfsmönnum og þeim sem hafa verið bólusettir. Þá fá þeir sms og skilaboð í heilsuveru með strikamerki, eins og þeir væru að fara í sýnatöku nema þetta er bólusetning,“ segir Ingi Steinar.

Spurður hvort mögulegt verði að nýta allan þennan gífurlega lærdóm í framtíðinni segir Ingi Steinar að það svo vera.

„Það er hægt að nýta kerfin áfram í alls kyns skimanir. Það er verið að breyta krabbameinsskimunum og við sjáum fyrir okkur að það verði meiri sjálfvirkni í kringum það allt saman þannig að konur fái jafnvel bara boð um ákveðinn tíma þegar komið er að því að skimun. Það mun væntanlega auka við mætingu í skimanir ef konur þurfa ekki að muna eftir því að hringja og panta tíma. Það eru ýmsar svoleiðis leiðir sem við erum að horfa til.“

Fólk vill ekki drekkja heilbrigðiskerfinu í einhverjum óþarfa

Ingi Steinar telur reynsluna ómetanlega og henta hinum almenna borgara mun betur en eldra fyrirkomulag.

„Mér finnst eiginlega stærsti lærdómurinn að treysta fólki þarna úti. Fyrst þegar við byrjuðum á þessari skráningu í sýnatöku höfðu menn miklar áhyggjur af því að það myndi hrúgast inn fólk sem þyrfti kannski ekkert að fara í sýnatöku. Raunveruleikinn er ekki sá. Fólk er ekki að skrá sig að nauðsynjalausu í sýnatöku nema í algjörum undantekningatilfellum. Fólk vill ekki drekkja heilbrigðiskerfinu í einhverjum óþarfa.“

mbl.is