Kuldinn bítur í stífri norðanátt

Kort/Veðurstofa Íslands

Það snjóar á norðurhelmingi landsins og mest verður snjókoman á utanverðum Tröllaskaga. Veðurstofa Íslands gaf í gær út viðvörun vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi en nokkur snjóflóð hafa fallið í nágrenni Ólafsfjarðar.

„Nú er hann lagstur í ákveðna norðanátt hjá okkur og í grófum dráttum verður sama veður út vikuna. Það snjóar á norðurhelmingi landsins og mesta úrkoman verður um miðbik Norðurlands á utanverðum Tröllaskaga. Sunnan til á landinu verður skýjað með köflum og úrkomulaust að mestu. Það er búist við frosti á öllu landinu. Þó frosttölur á mæli verði yfirleitt ekki háar, getur kuldinn bitið í kinnar í stífri norðanáttinni,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Norðan og norðaustan 10-18 m/s, en sums staðar hvassara í vindstrengjum við fjöll. Snjókoma eða él norðan- og austanlands en bjart með köflum sunnan heiða. Frost 1 til 7 stig.

Norðan 8-15 á morgun og él á norðurhelmingi landsins en bjart sunnan til. Frost 0 til 4 stig.

Á fimmtudag:

Norðanátt, víða 10-15 m/s, en sums staðar hvassara í vindstengjum við fjöll. Bjart veður sunnan til á landinu en él í öðrum landshlutum. Frost 0 til 4 stig.

Á föstudag og laugardag:
Norðan 13-20 og snjókoma eða él en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig.

Á sunnudag:
Norðan 8-15 og dálítil él en léttskýjað sunnan- og suðvestanlands. Frost 1 til 8 stig.

Á mánudag:
Norðan 5-13 og víða dálítil él en austlægari sunnanlands og líkur á snjókomu þar. Frost 2 til 10 stig.

Á þriðjudag:
Ákveðin austlæg átt og snjókoma með köflum, en hægari vindur og úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Áfram kalt í veðri.

mbl.is