Kraftur hefur vitundarvakningu

Lífið er núna.
Lífið er núna. Ljósmynd/Kraftur

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, verður með vitundarvakningu og fjáröflunarherferð dagana 21. janúar til 4. febrúar. Markmið herferðarinnar er að vekja athygli á fjölda þess fólks sem krabbamein hefur áhrif á. 

Í tilkynningu frá Krafti kemur fram að seldur verði varningur auk þess sem reynt verði að afla styrkja fyrir félagið. Fjölmargt ungt fólk greinist með krabbamein árlega en Kraftur styður við þau og aðstandendur þeirra. 

„Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á hverju ári. Við viljum vekja athygli á því að krabbamein snertir ekki einungis þann sem greinist með krabbamein heldur fjölmarga í kringum hann þar á meðal maka, foreldra, börn, vini, vandamenn og jafnvel vinnufélaga. Að meðaltali má segja að um 7-10 nánir aðstandendur standi að baki hverjum einstakling,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Til að styðja við starfsemi Krafts getur fólk gerst mánaðarlegir styrktaraðilar, sent inn staka styrki eða keypt íslenska „Lífið er núna“ húfu sem var framleidd fyrir átakið. Sala fer m.a. fram á vefsíðu félagsins lifidernuna.is

mbl.is