Búist við mikilli snjóflóðahættu

Frá Siglufirði. Fundað verður um stöðuna þar á morgun.
Frá Siglufirði. Fundað verður um stöðuna þar á morgun. mbl.is/Sigurður Ægisson

Mikið hefur bætt á snjó víða á Norðurlandi síðasta sólarhringinn. Ekki hefur verið tilkynnt um snjóflóð frá því að síðustu flóð féllu á Öxnadalsheiði í gærkvöldi, en ekki er hægt að útiloka að fleiri flóð hafi fallið þar sem vegir eru lokaðir og fáir á ferli.

Frá þessu segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Norðurlandi vestra.

Bent er á að mörg snjóflóð hafi fallið síðan á mánudag, þar af nokkur stór.

Helstu leiðir ófærar

Spáð er áframhaldandi norðan hvassviðri með éljum og snjókomu, a.m.k. fram á sunnudag, og áfram er búist við mikilli snjóflóðahættu. Næsti stöðufundur vegna rýmingar á Siglufirði verður á morgun, sunnudag klukkan 16.

Helstu leiðir Norðanlands eru ófærar en athugað verður með mokstur í fyrramálið, að því er segir í tilkynningunni.

Áfram er þá í gildi hættustig Veðurstofu Íslands vegna snjóflóðahættu og rýming á húsum á Siglufirði, auk óvissustigs vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi.

Fyrr í dag voru hús rýmd á Flateyri.

mbl.is