Snjóflóð féll úr Skollahvilft við Flateyri í nótt

Flateyri. Mynd úr safni.
Flateyri. Mynd úr safni.

Í nótt féll snjóflóð úr Skollahvilft ofan Flateyrar. Þetta kom í ljós í morgun, en flóðið fór niður með leiðigarðinum ofan byggðarinnar og stöðvaðist flóðið skammt utan við veginn að Sólbakka. Þetta kemur fram á vefsíðu Veðurstofunnar. Unnið er að könnun á ummerkjum flóðsins, en hættustig vegna snjóflóðahættu er enn í gildi.

Kort/Map.is

Eins og mbl.is hefur greint frá féll einnig snjóflóð ofan við bæinn Smiðsgerði í Skagafirði í gær, en flóðið tók með sér skúr sem stóð um 250 metrum ofan við bæinn. Þá féll einnig snjóflóð um veginn um Eyrarhlíð milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn var opinn með óvissustigi um snjóflóðahættu, en var lokað í kjölfarið. Flóð féll einnig á veginn yfir Öxnadalsheiði, en þrjú önnur flóð féllu þar á föstudagskvöldið.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum, en í gær voru nokkur íbúðahús á Flateyri rýmd sem og atvinnuhúsnæði á reit 9 á Ísafirði. Rýming á nokkrum íbúðarhúsum á Siglufirði er enn í gildi.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að óvissa sé um hversu mikil úrkoma verði í éljaganginum í dag og á morgun, en það ræður miklu um hversu mikil snjóflóðahættan er á hverjum stað. Heldur hefur dregið úr veðrinu frá því í gærkvöldi og minni úrkoma mælst á flestum sjálfvirkum úrkomumælum. Á Flateyri dró úr úrkomu í gærkvöldi og þar hefur lítil úrkoma mælst síðan þá og snjódýpt í upptakasvæðum ofan bæjarins ekki aukist.

Enn gengur þó á með dimmum éljum og skafrenningi víða á landinu. Á Austfjörðum hefur verið talsverð snjókoma í norðan- og norðaustanátt en ekki er talið að mikill snjór hafi safnast í helstu upptakasvæði snjóflóða ofan byggðar. Í dag á samkvæmt spánni að draga úr úrkomu á Austfjörðum. Hefur þetta langvarandi norðanveður nú staðið hátt í viku en spár gera ráð fyrir að heldur eigi að lægja á landinu. Áfram má þó búast við NA-strekkingsvindi og éljum í dag og á morgun og verður fylgst með aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert