„Hvað hyggst ríkisstjórnin gera?“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fjármálaráðherra hefur áður svarað mér að hann hafi ekki áhyggjur af spillingu á Íslandi og í íslensku viðskiptalífi, bæði í kjölfar þess að Ísland lenti á gráum lista og þegar Samherjaskjölin birtust. Það eru út af fyrir sig mjög skýr skilaboð. Hann virðist líta á mál sem koma upp sem tilfallandi en ekki kerfisvanda sem stjórnvöld eigi að taka á,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi.

Logi vitnaði í árlegan lista Transparency International sem mælir spillingu en Ísland er nú í 17. sæti listans og fellur niður um sex sæti á milli ára. Dan­mörk er í fyrsta sæti og Finn­land og Svíþjóð í því þriðja. Nor­eg­ur er í sjö­unda sæti list­ans. 

Logi sagði Transparency International augljóslega hafa áhyggjur af stöðunni og þróuninni síðustu ár. „Er fjármálaráðherra jafn áhyggjulaus nú og þegar ég spurði hann fyrir einu ári eða finnst honum tilefni til að taka mið af ábendingunum? Og ef svo er, hvað hyggst ríkisstjórnin gera?“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Glasið hálftómt eða hálffullt?

Hérna skiptir dálítið máli hvort menn kjósa að líta svo á að glasið sé hálftómt eða að það sé hálffullt. Þegar við skoðum þessa niðurstöðu með aðeins jákvæðara hugarfari en þingmanni virðist vera tamt að gera, þá má sjá að Ísland skipar sér í flokk með þeim þjóðum í heiminum þar sem spilling er minnst,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Hann sagði að vissulega væri hægt að líta þannig á málin að við skorum ekki jafn hátt og Norðurlöndin. 

Mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við getum gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eitt af því sem er áberandi í skýrslu sem þessari, og það sama á við um GRECO-úttektir, er að það eru ekki endilega dæmin um spillingarmál sem menn hafa í höndunum, heldur tilfinningin fyrir því að einhvers staðar grasseri spilling, einhver svona óljós tilfinning. Oft gerist það nú þegar formenn í stjórnmálaflokkum koma upp og tala einmitt inn í þá tilfinningu, að hún versnar,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert