Launaþjófnaður að verða landlægt ástand

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við í Eflingu höfum verið að heyra oftar og oftar frá atvinnurekendum sem eru miður sín yfir því að vera settir í þá stöðu að vera keppa við þá sem greiða ekki laun samkvæmt kjarasamningi,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.

„Þetta er að verða landlægt ástand bæði í byggingageiranum og veitingageiranum,“ bætir hann við.

mbl.is hafði samband við Viðar vegna gagnrýni sem kom fram á forystu stéttarfélagsins í grein eftir Þórarinn Ævarsson athafnamann í Morgunblaðinu í dag.

Spyr hvað vaki fyrir forystu Eflingar

Þórarinn gerir málflutning forsvarsmanna Eflingar um launaþjófnað að umfjöllunarefni í grein sinni og segir hann bæði rangan og villandi. Segir hann Eflingu gera allt of mikið úr umfangi slíkra mála og dragi ályktanir langt umfram efni. Í því samhengi bendir hann á fækkun krafna vegna vangoldinna launa.

„Maður veltir fyrir sér þeirri óþægilegu spurningu, hvað vaki fyrir þeim sem veita félaginu forystu að senda frá sér svona villandi upplýsingar, en það er engu líkara en það sé verið að reyna efna til ófriðar,“ skrifar Þórarinn og bætir í.

„Er ekki hægt að gera þá lágmarkskröfu á forsvarsmenn eins stærsta verkalýðsfélags Íslands að þeir reyni í það minnsta að námunda sig við sannleikann í stað þess að fabúlera út í loftið og draga ályktanir sem ganga þvert gegn þeim gögnum sem þeir eru að kynna?“

Segir sitt um hvar kjarasamningsbrot hafa verið algengust

Viðar bendir aftur á móti á að fækkun launakrafna síðustu mánuði sé til komin vegna þess að fyrirtæki sem í hlut eiga eru ekki í rekstri vegna kórónuveirunnar, meðal annars vegna hruns í ferðamannaiðnaði. Það segi sitt um hvar kjarasamningsbrot hafa verið algengust. Þá segir hann að þær tölur sem Þórarinn notar í greininni eigi ekki við þar í þeim tölum séu opinberir starfsmenn, þar sem launaþjófnaður fyrirfinnist nánast ekki.

„Launakröfur Eflingar eru einungis þau tilvik sem tilkynnt er um, félagsmaður vill að tekið sé áfram, og öll gögn og skriflegar staðfestingar eru tiltækar. Auðvitað er umfangið miklu meira, á sama hátt og t.d. magn fíkniefna í umferð er miklu meira en það sem gert er upptækt af lögreglu,“ útskýrir Viðar.

Heiðarlegir atvinnurekendur beri kostnaðinn

Þá bendir Viðar á að launaþjófnaður sé mjög oft á endanum leiðréttur með greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa, en í hann greiði allir atvinnurekendur.

„Ástandið eins og það er núna er það að heiðarlegir atvinnurekendur þurfa að bera beinan kostnað af þessu ástandi og þess vegna finnst mér það með ólíkindum að umsvifamikill atvinnurekandi stígi fram og skrifi grein í blað til þess að bera blak af þessu. Frekar en að einfaldlega standa vörð um hagsmuni heiðarlegra atvinnurekenda sem í þessu máli fara saman við hagsmuni launafólks og málflutning verkalýðshreyfingarinnar,“ segir Viðar að lokum.

Efling hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna greinaskrifa Þórarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert