Ísland eina græna ríkið í Evrópu

Sóttvarnastofnun Evrópu

Ísland er eina græna ríkið á lista Sóttvarnastofnunar Evrópu en nýr listi var birtur á vef stofnunarinnar í gær. 

Samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu eru smitin í ríkjum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins fæst á Íslandi eða 25,77 á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Staðan er verst á Íberíuskaganum en í Portúgal er nýgengi smita 1.429,43 og á Spáni 1.026,05. Bretland er ekki lengur talið með enda utan ESB og EES. Á Írlandi eru þau 814,42, 981,71 í Tékklandi og 885,48 í Slóveníu.

Þessar tölur voru áður birtar á hverjum degi en nú er gögnum safnað saman fyrri hluta viku og þær birtar síðdegis á fimmtudögum. Þannig að tölurnar gilda fyrir viku 2 og 3. Samkvæmt covid.is í gær er nýgengi innanlandssmita 8,2 og á landamærunum 7,6.

Næst á eftir Íslandi kemur Finnland með nýgengi upp á 72,31 og Grikkland með 67,53 en einu svæðin á korti Sóttvarnastofnunar sem eru græn auk Íslands eru grískar eyjar eins og sjá má á meðfylgjandi korti

mbl.is