Óhræddur við Sputnik fimmta

Pétur Óli Pétursson er hæstánægður með bólusetninguna.
Pétur Óli Pétursson er hæstánægður með bólusetninguna. Ljósmynd/Aðsend

Pétur Óli Pétursson, fararstjóri og athafnamaður, varð líklega fyrstur Íslendinga til þess að fá sprautu af rússneska bóluefninu Sputnik V í gær. Sprautuna fékk hann í Sankti Pétursborg þar sem hann er búsettur og er hann hæstánægður með bóluefnið. Hann segist hafa verið óhræddur að fá sprautuna. 

Pétur hefur verið búsettur í Sankti Pétursborg í rúma tvo áratugi. Þegar hann fékk bólusetninguna í gær voru fréttir af því að bóluefnið veitti 92% vernd ekki komnar í fjölmiðla. Hann segist þó ekki hafa verið efins um gagnsemi bóluefnisins, sem Rússar byrjuðu að bólusetja með í byrjun desember, áður en þriðja stigs rannsóknum var lokið. 

„Ég hef ekkert nema gott eitt um heilbrigðiskerfi að segja. Það hefur ekkert reynt mikið á það hjá mér en samt aðeins og það er alveg til fyrirmyndar. Ég trúi því ekki að þeir hefðu sett þetta á markað hjá sér ef þetta væri ekki öruggt, þó það sé auðvitað ekkert alveg öruggt í þessu þar sem þetta er svo nýtt allt saman. Ég var alveg óhræddur við að fara í þessa sprautu,“ segir Pétur Óli í samtali við mbl.is. 

Sankti Pétursborg breyti sýn fólks

Hann gekk einfaldlega inn á heilsugæslustöð í gærmorgun og fékk sprautu af Sputnik V, sem Pétur Óli kallar Sputnik fimmta, eftir að hann náði sér í skjal sem staðfesti að hann væri í sjúkrasamlaginu. Pétur Óli segist ósköp feginn að vera kominn með fyrsta skammtinn en hann fær seinni skammtinn eftir þrjár vikur. 

Eins og áður segir starfar Pétur Óli meðal annars sem fararstjóri en lítið er að gera í þeim bransa sem stendur. Hann er vanur að sýna Íslendingum Sankti Pétursborg sem hann segir eina þá fallegustu í heimi. 

„Það kemur ferðamönnum mjög á óvart hvað hún hefur upp á margt að bjóða. Hún breytir sýn þeirra sem koma mikið á Rússlandi og Rússum. Ég harma það alltaf að það eru allar fréttir neikvæðar um Rússland og Rússa, fyrsta jákvæða fréttin sem ég sá í langan tíma var um Sputnik V,“ segir Pétur Óli. 

mbl.is