Bjargaði lífi bestu vinkonu sinnar

Sólveig Ásgeirsdóttir bjargaði lífi bestu vinkonu sinnar, Súsönnu Helgadóttur, í júlí síðastliðnum þegar Súsanna fór í skyndilegt hjartastopp á heimili sínu. Sólveig, sem er Skyndihjálparmaður ársins 2020, hafði nýlega lokið námskeiði í skyndihjálp þegar hún var óvænt í heimsókn hjá vinkonu sinni en tveggja ára gamall sonur Súsönnu svaf í gegnum atburðina á meðan.

Í myndskeiðinu segja þær frá atburðarásinni.

Þær vinkonur sátu að spjalli þegar Súsanna missti skyndilega meðvitund. Sólveig var fljót að átta sig á að eitthvað alvarlegt amaði að vinkonu sinni og hringdi strax í 112. Þá var Súsanna ekki með púls, hætt að anda og orðin blá í framan. Með aðstoð neyðarvarðar 112 hóf Sólveig endurlífgun og hnoðaði Súsönnu og blés þangað til sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Í kjölfarið dvaldi hún á spítala í tvær vikur.

Nokkrar mínútur liðu þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn.
Nokkrar mínútur liðu þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn. mbl.is/Eggert

Leyndur hjartagalli

Í ljós kom að Súsanna var með leyndan hjartagalla en hefur í dag náð bata. Nú er hún með bjargráð og hefur lokið endurhæfingu.

Í umsögn valnefndar Rauða krossins vegna útnefningarinnar segir:

„Sólveig sýndi snarræði á neyðarstundu og þessi atburður sýnir okkur að alvarlegir atburðir geta orðið hvar sem er. Hver sem er getur lent í þeirri stöðu að þurfa að bjarga meðborgurum sínum, jafnvel á rólegu kvöldi heima hjá góðum vini.

Sem betur fer er sjaldgæft að jafn ungt fólk og Súsanna fari í hjartastopp án nokkurs fyrirvara en saga þeirra Sólveigar á erindi við okkur öll, enda gerist hún í aðstæðum sem flestir geta tengt við. Snarræði Sólveigar bjargaði lífi ungrar móður sem átti sér einskis ills von. Sólveig á svo sannarlega skilið að vera sæmd titlinum Skyndihjálparmaður ársins.“

Í dag 11.02. er 112 dagurinn og á hverju ári …
Í dag 11.02. er 112 dagurinn og á hverju ári er Skyndihjálparmaður ársins kynntur á þeim degi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert