Segja mikilvæg störf flutt úr landi

Reynir Arngrímsson er formaður Læknafélags Íslands.
Reynir Arngrímsson er formaður Læknafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Með því að flytja rannsóknarhluta leitarstarfs hvað varðar krabbameinsleit í leghálsi eru „mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi á tímum þegar atvinnuleysið er í hæstum hæðum“. Þetta kemur fram í ályktun Læknafélags Íslands (LÍ) um krabbameinsleit í leghálsi. 

Eins og áður hefur komið fram færðist krabbameinsleitin frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslustöðva um síðastliðin áramót. Við þann flutning var tekin ákvörðun um að flytja rannsóknarhluta leitarstarfsins til erlendrar rannsóknarstofu. 

Stjórn LÍ harmar „að ekki hafi gefist tími til að gera við innlenda aðila samning um rannsóknarhluta leitarstarfsins“.

Vekur upp spurningar um atvinnu- og heilbrigðispólitík

„Þá telur LÍ að það veki upp spurningar um atvinnu- og heilbrigðispólitíkina sem nú er rekin í landinu að hægt virðist vera að gera samninga um heilbrigðisþjónustu erlendis án útboðs á sama tíma og stjórnvöld telji sér óheimilt að ganga til samninga um sérhæfða innlenda heilbrigðisþjónustu án útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í ályktun félagsins. 

Þar er tekið undir álit embættis landlæknis, Félags íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingalækna, Félags rannsóknalækna og meirihluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini, að stefnt skuli að því að allir þættir skimunarferilsins verði framkvæmdir hérlendis.

Að lokum er tekið fram í ályktuninni að stjórn LÍ hvetji „konur til að mæta reglubundið í krabbameinsleitina og alla hlutaðeigandi aðila um að taka höndum saman við að styrkja leitarstarf í landinu og sameinast um að allir þættir þess séu á hendi íslenska heilbrigðiskerfisins“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert