Gifting, skírn og tvöfalt stórafmæli

Anna Margrét og Daníel fæddust bæði á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri …
Anna Margrét og Daníel fæddust bæði á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri fyrir nákvæmlega þrjátíu árum. Í dag giftu þau sig og gáfu frumburði sínum nafn. Ljósmynd/Aðsend

19. febrúar 2021 virðist við fyrstu sýn ekki vera annað en fábrotinn föstudagur í hringiðu lífsins og fyrir flesta stendur það sennilega heima. Hið gagnstæða gildir þó fyrir Daníel Alexandersson og Önnu Margrét Bjarnadóttur.

Fyrir brúðhjónin er í raun og veru vandséð hvernig dagurinn í dag gæti verið meiri hátíðisdagur.

Í fyrsta lagi giftu þau sig hjá sýslumanni í morgun.

Í öðru lagi skírðu þau frumburð sinn í Dalvíkurkirkju, sem fékk nafnið Alexander Bjarni Daníelsson.

Í þriðja lagi eiga þau bæði stórafmæli í dag og eru orðin þrítug, nákvæmlega jafngömul upp á dag.

Í fjórða lagi var Daníel, sem er augnlæknir, að komast inn í sérnám í Lundi í Svíþjóð, þangað sem litla fjölskyldan stefnir á að flytja í apríl.

„Þetta er svolítið spes,“ viðurkennir Anna Margrét í samtali við mbl.is. Í ljósi þess að það styttist í að þau flytji til Svíþjóðar ákváðu þau að sæta lagi í dag á meðan veiran kæmi ekki í veg fyrir hátíðahöld til að halda upp á skírn, afmæli og brúðkaup með lítilli veislu á Dalvík.

Kynntust á fæðingardeildinni

Anna Margrét er frá Dalvík og Daníel frá Akureyri. Þau kynntust í Menntaskólanum á Akureyri þegar þau voru þar við nám og hafa verið saman síðan. „Við vorum ekkert að flækja þetta,“ segir Anna. 

Foreldrar þeirra benda reyndar iðulega á að þau hafi kynnst töluvert fyrr, nefnilega á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 19. febrúar 1991, daginn sem þau fæddust þar bæði tvö.

Af því leiðir auðvitað að parið hefur alltaf átt sama afmælisdag, sem er vitanlega gleðilegt í meginatriðum, en getur að sögn Önnu Margrétar einnig verið „agalegt“, eins og þegar sá gállinn er á systkinum þeirra hjóna að láta að því liggja að þau hljóti í raun og veru að vera tvíburar sem voru aðskildir við fæðingu. Þessu vísa þau á bug.

Án þess að mikilvægum lögmálum um hlutlausa fréttamennsku sé varpað fyrir róða, telur Morgunblaðið og mbl.is rétt að óska fjölskyldunni margfaldlega til hamingju með þetta allt saman. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Grunsamlega symmetrísk afmælissíða Morgunblaðsins í dag kom blaðamanni á sporið um tímamótin:

Skjáskot/Morgunblaðið
mbl.is