Samþykktu aðgerðir vegna myglu

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingsályktun um fjölbreyttar aðgerðir gegn raka-  og mygluskemmdum í fasteignum var samþykkt á Alþingi í dag. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, lagði tillöguna fram og hlaut hún afgreiðslu velferðarnefdar og þingsins. Ljóst er að samtaða var um málið í velferðanefnd enda allir nefndarmenn samþykkir nefndaráliti málsins. 

Í tillögunni eru lagðar til sex aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir  raka-  og mygluskemmdir og auka réttindavernd þeirra sem verða fyrir tjóni af þeirra völdum. 

Í tillögunni er félags- og barnamálaráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, falið að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum til að uppræta og koma í veg fyrir tjón vegna rakaskemmda í fasteignum.

Það skuli gert með því að:

  • Auka réttindavernd þeirra sem verða fyrir tjóni vegna rakaskemmda.
  • Efla sjálfstætt eftirlit með prófunum á byggingarefni áður en það er tekið í notkun hér á landi.
  • Efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum tengdum þeim.
  • Gera aðgengilegar á miðlægan hátt upplýsingar um framkvæmdir á húsnæði.
  • Taka upp jákvæða hvata fyrir tryggingafélög til að tryggja húsnæði gegn rakaskemmdum.
  • Taka upp jákvæða hvata fyrir fasteignaeigendur til að koma í veg fyrir og uppræta rakaskemmdir á eldra húsnæði.
mbl.is