„Þurfum að vera viðbúin stærri skjálftum“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verið er að meta hvort hækka þurfi viðbúnaðarstig almannavarna vegna jarðskjálfta á Reykjanesi, en undanfarið ár hefur þar verið óvissustig vegna landriss. Slík aðgerð hefur þó í sjálfu sér ekki aðra þýðingu en að menn passi sig betur og fari yfir sína hluti. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Hann segir að almenningur á suðvestur horninu þurfi jafnframt að vera viðbúinn undir að stærri skjálftar verði.

Víðir segir þessa skjálftahrinu núna vera óvenjulega í ljósi þess hversu margir stórir skjálftar hafi riðið yfir. „Þetta er ekki algengt á þessu svæði, allavega ekki í seinni tíð,“ segir hann. Skjálftar sem þessir geti svo valdið bæði stærri skjálftum og því að spenna færist á milli skjálftasvæða. „Við erum alltaf með í huga að svona hrinur geti sett af stærri skjálfta. Ekkert endilega á þessum stað heldur gæti þetta haft áhrif nálægt,“ segir Víðir.

Fylgjast með hvort skjálftarnir færast austar

Þar er meðal annars horft til Brennisteinsfjalla að sögn Víðis, en það er svæði sem vísindamenn hafa bent á að geti haft áhrif á höfuðborgarsvæðið. Segir hann að síðasta árið hafi verið unnið að allskonar áætlunum fyrir bæði Reykjanesið og höfuðborgarsvæðið og að sú vinna haldi áfram. Enn sem komið er hafi skjálftar bara verið vestan við Kleifarvatnið, en stærri skjálftar austan við það og á milli Kleifarvatns og Bláfjalla gætu breytt stöðunni. Segir hann að engin spenna sjáist þar núna, en skjálftarnir geti auðveldlega breytt því og að Veðurstofan sé nú að skoða það með almannavörnum til að átta sig á líkindum á frekari skjálftum. „Það er samt næstum ómögulegt að segja eitthvað til um það því jarðskjálftar eru ólíkindatól sem erfitt er að spá um,“ bætir Víðir við.

Spurður hvort búast megi við frekari og stærri skjálftum í kjölfarið segir hann: „Það er ólíklegt að við fáum frekari forboða að skjálftum. Við þurfum að vera viðbúin stærri skjálftum.“

Eitthvað hefur verið um skriðuföll á Reykjanesi og nefnir Víðir að tilkynningar hafi komið um slíkt í Þorbirni við Grindavík, úr Keili og við Kleifarvatn.

Var á fundi með yfirmönnum norrænu almannavarna

Mikið hefur verið í gangi hjá almannavörnum síðasta árið vegna kórónuveirufaraldursins og hefur Víðir verið í forgrunni með þríeykinu þar frá upphafi. Spurður hvort erfitt sé að skipta um hatt með engum fyrirvara og fara að einbeita sér að jarðskjálftum í stað veirunnar segir Víðir að það sé hluti af starfinu. 

„Ég var á fundi með yfirmönnum norrænu almannavarna um Covid þegar fyrsti skjálftinn kemur. Maður kvaddi þann fund og sagði að jarðskjálfti væri í gangi á Íslandi og að ég þyrfti að fara. Tíu sekúndum seinna var ég kominn í úlpuna og kominn á fullt í þessu,“ segir hann að lokum.

mbl.is