Bóluefnasendingar fara stækkandi

Frá bólusetningu framlínustarfsfólks í heilbrigðiskerfinu í lok síðasta árs.
Frá bólusetningu framlínustarfsfólks í heilbrigðiskerfinu í lok síðasta árs. mbl.is/Kristinn Magnússon

38.000 skammtar af bóluefni gegn Covid-19 eru komnir til landsins frá lyfjafyrirtækjunum Pfizer, Moderna og AstraZeneca. Sendingarnar frá framleiðendunum fara stækkandi, að sögn framkvæmdastjóra Distica, fyrirtækisins sem sér um að dreifa skömmtunum. 

31.415 skammtar af þessum 38.000 hafa nú þegar verið notaðir, samkvæmt upplýsingum á Covid.is. Því er ljóst að um 6.500 skammtar hafa ekki verið notaðir. 

Stærstur hluti skammtanna sem kominn er til landsins er frá Pfizer. Upphaflega geymdi Distica hluta skammtanna fyrir seinni bólusetninguna, þar sem öll bóluefnin sem hingað hafa komið eru þannig að tvo skammta þarf til þess að öðlast fulla bólusetningu, en breyting varð þar á fyrr á árinu. Distica dreifir skömmtunum því um leið og þeir berast.

Júlía Rós Atladóttir er framkvæmdastjóri Distica.
Júlía Rós Atladóttir er framkvæmdastjóri Distica.

Allt samkvæmt plani

„Það er svo mikið af reglulegum sendingum sem koma til landsins að við erum hætt að geyma skammta, við bara dreifum öllu,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica í samtali við mbl.is. 

Hún segir að dreifingin hafi gengið vel og ekkert komið upp á. Allt hafi verið samkvæmt plani fyrir utan einhverjar smávægilegar tilfærslur á milli vikna. 

„Við erum með afhendingarplan nokkrar vikur fram í tímann og sendingarnar eru aðeins að stækka, magnið er að aukast,“ segir Júlía Rós. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert