Stytta af Hans Jónatan verður að veruleika

Hans Jónatan bjó á Djúpavogi eftir að hann flúði til …
Hans Jónatan bjó á Djúpavogi eftir að hann flúði til Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að stjórnvöld muni styrkja kaup á minnisvarða um Hans Jónatan, sem jafnan er vísað til sem fyrsta blökkumannsins sem settist að á Íslandi.

Ríkisstjórnin veitir sveitarstjórn Múlaþings þrjár milljónir króna til verkefnisins. Til stendur að setja verkið upp á Djúpavogi, þar sem Hans Jónatan lifði sem frjáls maður eftir að hann strauk frá Kaupmannahöfn til Íslands árið 1802.

Styttuna gerir Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður, að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram þingsályktunartillögu í fyrra um að reisa Hans minnisvarða. Þar óskaði hann þess að minnisvarðinn yrði „fyrst og fremst ákall um það frelsi sem er göfugast allra mannréttinda og má aldrei gleymast þótt móti blási í erfiðum heimi.“

Þingsályktunartillaga Vilhjálms var lögð fram í júní, þegar mótmæli gegn kynþáttamisrétti stóðu sem hæst í Bandaríkjunum undir merkjum Black Lives Matter. 

Hans Jónatan var fæddur 1784 í Dönsku Jómfrúareyjunum og var þræll uns hann strauk frá Danmörku árið 1802. Á Djúpavogi vann hann verslunarstörf og var bóndi til dauðadags. Afkomendur hans eru um eitt þúsund.

Afsteypa af styttu Nínu

Ríkisstjórnin ákvað einnig á fundi sínum í dag að veita fjögurra milljón króna styrk til gerðar afsteypu af styttunni „Afrekshug“ eftir listakonuna Nínu Sæmundsson (1892-1965).

Ætlunin er að finna höggmyndinni stað á Hvolsvelli en Nína fæddist í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð árið 1892. Frumgerð verksins „Afrekshugur“ stendur yfir anddyri Waldorf Astoria hótelsins í New York. Með verkinu bar Nína sigur úr býtum í hugmyndasamkeppni árið 1931.

mbl.is