Bænastund færð til þriðjudagskvölds

Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson í hlíðum K2.
Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson í hlíðum K2. Ljósmynd/Facebook-síða John Snorra

Vegna veðurspár hefur bænastundinni fyrir John Snorra Sigurjónsson og félaga hans Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr við Vífilsstaðavatn verið frestað til þriðjudagskvölds klukkan 19.30.

„Okkur langar að koma saman, tendra ljós og hugsa til Johns Snorra og biðja fyrir honum, Ali og Juan Pablo. Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir mun leiða bænastund,“ segir í facebook-viðburðinum, en bænastundin átti að fara fram á sunnudagskvöld.

Allir þeir sem eiga ekki heimangengt eru hvattir til að tendra ljós hjá sér og deila með þeim á viðburðinum.

„John á vini og vandamenn um allan heim og með þessum hætti getum við sameinast.“

Þátttakendur eru beðnir að huga vel að sóttvarnareglum og annað hvort tryggja tveggja metra reglu eða nota grímu.

Gestir eru beðnir um að mæta með höfuðljós þar sem Vífilsstaðavatn er friðland og óheimilt að fleyta kertum á vatninu. Skipuleggjendur útvega bæði kertaljós og kyndla sem verður safnað saman að lokinni bænastund.

Að lokinni bæn og kveðju frá fjölskyldu verður myndaður ljósahringur í kringum vatnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert