1.500 skjálftar frá miðnætti

Hrinan er enn í gangi en yfir 11.500 jarðskjálftar hafa …
Hrinan er enn í gangi en yfir 11.500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst. Kort/Veðurstofa Íslands

Skjálfti af stærðinni 4,1 varð suðvestan við Keili klukkan 12:12 í dag, en frá miðnætti hafa mælst tæplega 1.500 skjálftar á svæðinu, þar af 18 af stærð 3 eða stærri. Sá stærsti varð klukkan 1:31 í nótt og mældist hann 4,9 að stærð.

Kröftug jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga þann 24. febrúar með skjálfta af stærð 5,7 og öðrum 5,0 að stærð. Hinn 27. febrúar varð svo skjálfti 5,2 að stærð og í gær, 28. febrúar, varð skjálfti M4,7 að stærð.

Svona hrinur eru ekki einsdæmi á þessu svæði, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Til dæmis mældust um fimm skjálftar 10. júní 1933 sem voru af stærð 4,9 til 5,9, við Fagradalsfjall.

Yfir 11 þúsund skjálftar

Hrinan er enn í gangi en yfir 11.500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirku jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst. Um 30 skjálftar yfir 4 að stærð hafa mælst og um 200 jarðskjálftar hafa verið stærri en 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert