Gasmengun yrði mun minni en frá Holuhrauni

Eldvörp við Grindavík. Sérfræðingar telja langlíklegast að eldgos yrði lítið, …
Eldvörp við Grindavík. Sérfræðingar telja langlíklegast að eldgos yrði lítið, ef af yrði, og það myndi ekki ógna byggð. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er í sjálfu sér óbreytt staða. Þetta merki sem kom fram á radarmynd um kvikuhreyfingu fær áfram staðfestingu í jarðskjálftahreyfingum og gps-mælingum,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn eftir fund vísindaráðs almannavarna í hádeginu.

„Stóra verkefni dagsins er að ná utan um hvað það þýðir og skoða þau líkön sem hafa verið gerð af gosi og hraunflæði á þessum stað þarna sunnan við Keili og við Fagradalsfjall,“ segir Víðir enn fremur.

Sérfræðingar telja langlíklegast að eldgos yrði lítið, ef af yrði, og það myndi ekki ógna byggð. 

„Gosin á Reykjanesinu verða ekki mjög stór. Stærstu hraunin þar eru ekkert risastór. Líkur á stóru gosi eru ekki miklar en við horfum á allt í þessu og útilokum ekkert,“ segir Víðir.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talið er að mögulegt gos myndi ekki leiða til mikils öskufalls en gasmengun yrði einhver, þó ekkert í líkingu við það sem var í gosunum í Holuhrauni á árunum 2014 og 2015.

„Holuhraunsgosin voru mjög stór. Þar rann hraunið lengst 40 kílómetra og var mjög þykkt,“ segir Víðir og bætir við að sig minni að lengsta hraun á Reykjanesi hafi runnið 17 kílómetra. 

Víðir segir að búist sé við frekar litlu gosi þar sem hraunið rynni nokkurra kílómetra leið. Gasmengun yrði þá í samræmi við það.

„Ef við horfum á að þarna verði gos með hraunstraumi svona eitthvað í líkingu við spálíkön þá væri gasstreymi ekkert svakalegt. Það myndi valda óþægindum og slakari loftgæðum en ekkert meira en það.“

mbl.is