Greindust jákvæð þrátt fyrir neikvæð PCR-próf

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farþegar sem greindust með Covid-19 í landamæraskimun síðastliðinn sólarhring voru með neikvætt PCR-próf. Þetta staðfesti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Þórólfur segir stöðuna mjög athyglisverða.

Þórólfur segir sérstaklega fylgst með því hversu miklu krafan um neikvætt PCR-próf sé að skila „Og hvernig stendur á því að fólk sem er að koma með nýtt, neikvætt PCR-próf sé að greinast með veiruna hér, annaðhvort í fyrstu skimun eða annarri skimun.“ 

Reynslan á PCR-prófum ræður tillögum

„Niðurstaðan úr því mun allavega í mínum huga ráða miklu um hvernig tillögur um framtíðarskipulag á landamærunum verður,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir fjöldann sem greinst hefur jákvæður fyrir veirunni á landamærum en framvísað neikvæðu PCR-prófi ekki slíkan að hægt sé að greina mynstur um hvaðan prófin koma, eða hvað gæti verið að fara úrskeiðis. „Við reynum að skoða sérstaklega þessi vottorð sem er komið með, hvaðan eru þau og svo framvegis.“

Fimm Covid-19-smit á landamærum greindust síðastliðinn sólarhring, þar af fjögur virk smit og mótefnamælingar er beðið í einu tilfelli. Af fjór­um virk­um smit­um greind­ust þrjú við fyrri skimun en eitt við seinni skimun.

Um 60 hafa greinst með breska afbrigði Covid-19 við landamærin á Íslandi, sem ekki hefur breiðst út. Hvorki suðurafríska né brasilíska afbrigðið hefur greinst hér á landi.

Inntur eftir svörum um samkomulag Evrópusambandsins um innkaup á bóluefnum og áformum nokkurra landa um viðbótarinnkaup, vísaði Þórólfur á heilbrigðisráðuneytið, sem annast samninga um innkaup á bóluefni fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert