Grindvíkingum stendur ekki á sama

„Fólk er upp til hópa orðið órólegt, en ég hugsa …
„Fólk er upp til hópa orðið órólegt, en ég hugsa að allir verði voða fegnir því að losna við jarðskjálftana í bili,“ segir Otti Sigmarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Otti Sigmarsson, félagi í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, segir sveitina vera vel undirbúna fyrir hugsanlegt eldgos á Reykjanesskaga, sérstaklega í ljósi jarðhræringanna sem skóku Grindavík fyrir rétt rúmu ári.

Otti ræddi við blaðamann mbl.is á Oddafelli, um tvo kílómetra frá rótum Keilis.

„Við vorum ræstir út síðdegis, en höfum svo sem verið að vinna í áætlanagerð og undirbúningi fyrir svona atvik í rúmt ár,“ segir hann um starf sveitarinnar í dag, en í janúar í fyrra olli jarðskjálftavirkni við fjallið Þorbjörn áhyggjum Grindvíkinga um hugsanlegt eldgos.

„Svo við fórum strax í að fylgja áætlunum í að gera sveitina klára og koma af stað ferlum sem þarf að grípa til. Tækin okkar eru klár og mannskapurinn kominn í hús.“

Fólk á svæðinu orðið órólegt

Hann segir þó aðstæðurnar núna nokkuð ólíkar þeim sem uppi voru fyrir rúmu ári.

„Auðvitað er sviðsmyndin aðeins önnur ef mögulegt gos er á þessu svæði, en í grunninn gilda sömu áætlanir: Það þarf að huga að því hvar á að loka vegum og fá fólk í það, og sveitirnar hérna á svæðinu standa mjög vel saman í því.“

En þótt hugsanlegur gosstaður sé fjær byggðinni nú en síðast stendur Grindvíkingum alls ekki á sama, að sögn Otta.

„Fyrir ári var kannski mögulegt að gjósa myndi hérna nær okkur, en það er samt alveg sama óvissa núna um hvort það gjósi, og þá hvenær. Fólk er upp til hópa orðið órólegt, en ég hugsa að allir verði afar fegnir því að losna við jarðskjálftana í bili.“

Aðspurður segir Otti draumastöðuna vera þá að ekki gjósi neitt, en að fólk sé orðið mjög þreytt á skjálftunum svo mögulega væri einhvers konar spennulosun til góðs.

„Það er ekkert hérna í nágrenninu, svo ef það þyrfti einhvers staðar að gjósa á Reykjanesskaga væri þetta sennilega langbesti staðurinn.“

mbl.is