„Þetta er hviðótt og enn í gangi“

Horft í átt að fjallinu Keili.
Horft í átt að fjallinu Keili. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Staðan er sú að virknin er enn í gangi á svipuðum slóðum. Það varð skjálfti þarna um ellefu sem fannst rosalega vel,“ segir Krist­ín Jóns­dótt­ir, hóp­stjóri vökt­un­ar og nátt­úru­vár hjá Veður­stofu Íslands, en vísindaráð almannavarna fundaði vegna skjálftahrinunnar á Reykjanesskaga í hádeginu.

Jarðskjálfti 3,8 að stærð varð 11.05 en upptök hans voru á sjö kíló­metra dýpi, 1,2 kíló­metr­a suð-suðvest­ur af Keili. Kristín segir að hugsanlega sé skjálftinn aðeins grynnri en aðrir og það geti skýrt hvers vegna hann fannst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu. 

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundu fáa skjálfta síðdegis í gær og gærkvöldi en Kristín segir hrinuna í fullum gangi.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri hjá náttúruvávöktun Veðurstofunnar.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri hjá náttúruvávöktun Veðurstofunnar. mbl.is/Þorsteinn

„Það koma svona tímabil þar sem er mjög lítil virkni inn á milli og svo tekur hún sig upp að nýju. Það er alveg rétt að frá hádegi í gær dettur hún aðeins niður og svo kemur þessi skjálfti í nótt og aftur í morgun. Þetta er hviðótt og enn í gangi.“

Kristín segir að áfram séu mestu jarðhræringarnar við Keili og svo sjáist einhver virkni við Trölladyngju, örlítið nær höfuðborgarsvæðinu.

Í greiningu frá eld­fjalla­fræði- og nátt­úru­vár­hóp­i Há­skóla Íslands frá því í gær kemur fram að komin séu tvö sterk svæði þar sem gossprunga geti opnast. Ann­ars veg­ar við Keili og hins veg­ar við Trölla­dyngju/​Hlöðuvelli.

„Við höfum ekki séð nein merki um kvikuhreyfingar nær Trölladyngju en þetta er eitt af því sem við erum að fylgjast með. Auðvitað er mjög mikilvægt að við fáum klárt svar við þeirri spurningu hvort það sé nokkuð að opnast þar líka. Enn sem komið er erum við ekki komin með nein svör,“ segir Kristín.

Von er á nýjum gervihnattamyndum af svæðinu í kvöld og segir Kristín að þær verði skoðaðar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert