Vegum lokað á Reykjanesi

Búið er að loka fyrir umferð á Reykjanesi og er …
Búið er að loka fyrir umferð á Reykjanesi og er fólk beðið um að fara ekki þangað að óþörfu. mbl.is/Hallur Már

Veginum að Keili hefur verið lokað og fólk beðið um að virða lokanir en björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út um þrjú leytið eða strax og ljóst var að eldgos væri jafnvel að hefjast á Reykjanesi. 

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að björgunarsveitarfólk sé í viðbragðsstöðu en einhverjir eru þegar komnir í verkefni með lögreglu við að loka vegum á Reykjanesi til að tryggja öryggi á meðan óvissa er til staðar. Jafnframt sitja fulltrúar Landsbjargar í samhæfingarmiðstöð og sinna verkefnum þar. 

„Helstu hvatningarorð til almennings á þessari stundu er að halda ró sinni og vaða ekki út á Reykjanes í von og óvon um að sjá eitthvað sem enginn veit hvað er og er ekki endilega hafið. Við ítrekum að fólk haldi ró sinni og það er enginn stórkostleg hætta á ferðum. Það eru björgunarsveitir og lögregla á svæðinu til þess að tryggja öryggi fólks því við viljum ekki að fólk sé á svæðinu ef eitthvað gerist,“ segir Davíð Már í samtali við mbl.is.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi íbúum í Reykjanesbæ smáskilaboð vegna hugsanlegra eldsumbrota á Reykjanesskaga. Þar segir að bann sé lagt við allri umferð, gangandi og akandi, í námunda við Keili og Fagradalsfjall. 

Lögreglan rekur fjölmiðla í burtu af svæðinu.
Lögreglan rekur fjölmiðla í burtu af svæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina