Facebook býður íslenskum fjölmiðlum styrk

Margir kenna Facebook um bága rekstrarstöðu fjölmiðla um allan heim. …
Margir kenna Facebook um bága rekstrarstöðu fjölmiðla um allan heim. Nú kveðst samfélagsmiðillinn ætla að efna til samstarfs við fjölmiða með það fyrir augum að efla þá.

Íslenskum fjölmiðlum býðst nú að sækja um styrk hjá Facebook til þess að halda úti fréttaflutningi á sínu áhrifasvæði. Þeir fjölmiðlar sem sækja um styrk eiga möguleika á að fá 50.000 bandaríkjadali, andvirði um 6,4 milljóna króna, í eingreiðslu.

Styrkurinn er hluti af verkefni Facebook sem heitir á ensku Nordic Reader Revenue Accelerator og því er ætlað að styðja við miðla af öllum gerðum, allt frá prenti og vef til hljóð- og myndmiðla. 

Þátttakendur fá ekki aðeins fjárstyrk heldur eiga stjórnendur einnig að taka þátt í umfangsmikilli rekstrarþjálfun, sem spannar marga mánuði. Styrknum er aðallega beint til svæðisbundinna miðla, eins og lesa má um í tilkynningu um verkefnið.

Verkefnið er fjármagnað og skipulagt af The Facebook Journalism Project sem er sagt eiga að hjálpa fréttamiðlum að byggja upp sjálfbæran atvinnurekstur. Verkefnisstjóri er Tim Griggs, fyrrverandi framkvæmdastjóri New York Times og Texas Tribune.

Facebook og fjölmiðlar takast á

Slegið hefur í brýnu með Facebook og svæðisbundnum fjölmiðlum á síðustu misserum, síðast í Ástralíu svo að heimsathygli hefur vakið. Þar neituðu fjölmiðlar að leyfa Facebook að birta efni sitt án þess að greiða fyrir það gjald.

Eftir að hið ótrúlega hafði gerst, að fréttir ástralskra miðla höfðu verið fjarlægðar af Facebook, var síðar komist að samkomulagi um einhvers konar þóknun til miðlanna frá Facebook.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað aðgerðir til að …
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað aðgerðir til að jafna stöðu innlendra miðla við Facebook. mbl.is/Árni Sæberg

Grundvallarátökin í þessum málum snúast um það auglýsingafé sem ratar til Facebook í stað miðlanna, sem eru þó þeir sem framleiða efnið sem Facebook notar síðan til að halda uppi umferð um samfélagsmiðilinn.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur boðað að erlendir samfélagsmiðlar verði skattlagðir í meira mæli hér á landi en ekki gefið upp hver útfærsla slíkrar skattlagningar getur orðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert