Ótrúlega skjót viðbrögð við slysinu

Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs fyrir rúmu ári.
Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs fyrir rúmu ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðskiptavinur pítsustaðar við Strandgötu í Hafnarfirði tilkynnti um bifreið sem fór í sjóinn við Óseyrarbryggju í Hafnafjarðarhöfn þann 17. janúar í fyrra, þegar þrír ungir drengir fóru í sjóinn með bílnum. Þetta kom fram í máli Ólafs I. Grettissonar, varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, sem fór yfir atburðarás og viðbragð kvöldsins á Bráðadegi Landspítalans í dag.

Ólafur rakti hvernig viðbragð við tilkynningunni gekk að óskum og innan 15 mínútna frá útkalli hafi kafarabíll verið mættur á vettvang. Sjá mátti á öryggismyndavélum að bíllinn var 12 sekúndur að sökkva alveg frá því hann fór út af bryggjunni. Fjórum sekúndum áður en hann sökk alveg, tókst einum drengjanna að losa sig og synda í land.

Þrír piltar voru í bílnum sem fór fram af Óseyrarbryggju …
Þrír piltar voru í bílnum sem fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kom í máli Ólafs að teymi sem sinnir köfunarútköllum sé staðsett í Skógarhlíð. Af tíu sem voru á vakt þetta kvöldið höfðu sex starfsmenn reynslu af köfunarbjörgun sem þykir mjög gott. Sérstakur bíll er útbúinn fyrir köfunarútköll hjá slökkviliðinu. 

Frá því kafarar fóru niður að bryggju liðu aðeins þrjár mínútur þar til þeir höfðu staðsett bílinn, fimm mínútur þar til fyrri drengurinn var kominn á yfirborðið og níu mínútur þar til sá síðari var kominn á yfirborðið. 

Báðir drengirnir voru komnir í sjúkrabíla 32 mínútum eftir að bíllinn lenti í sjónum og báðir komnir á bráðamóttökuna í Fossvogi tólf mínútum síðar.

Sjá má upptöku frá bráðadeginum hér fyrir neðan.

mbl.is