Reyna að koma í veg fyrir að smitið dreifist

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Ekkert bendir til þess að fólkið sem greindist smitað af kórónuveirunni um helgina, einn eftir dvöl í útlöndum og tveir sem taldir eru hafa smitast af honum, hafi farið á nokkurn hátt á svig við gildandi sóttvarnareglur. 

Hundruð hafa farið í skimun vegna smitanna í gær og í dag og verður boðið upp á skimun fyrir tónleikagesti Hörpu fram í vikuna þar sem einn hinna smituðu hafði sótt tónleika þar á föstudag. Hin víðtæka skimun er framkvæmd svo smitið sleppi ekki út í samfélagið. 

Engar reglur brotnar

„Við erum að reyna að útiloka alla möguleika á útbreiðslu,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna, í samtali við mbl.is.

Innanlandssmitin tvö greindust um helgina en um er að ræða fyrstu innanlandssmitin sem greinst hafa í einn og hálfan mánuð. Þau hafa bæði verið rakin til smits hjá manni sem kom til lands­ins 26. fe­brú­ar síðastliðinn og greind­ist smitaður í seinni skimun. Annað smitið kom upp hjá manni sem á íbúðina sem maður­inn sem kom að utan dvaldi í. Hitt smitið kom upp hjá starfs­manni Land­spít­ala sem býr í sama stiga­gangi og sá sem kom að utan.

„Það er ekkert sem bendir til þess að ekki hafi verið farið eftir einhverjum reglum,“ segir Jóhann Björn.

Smitrakningarteymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að störfum.
Smitrakningarteymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að störfum. Ljósmynd/Lögreglan

Snemmgreiningin mikilvæg

Eins og áður hefur komið fram í fréttum fór starfsmaður Landspítala í sýnatöku vegna einkenna nokkrum dögum áður en talið er að hann hafi smitast. Þá var niðurstaða sýnatökunnar neikvæð. Þegar hann fór aftur að finna fyrir einkennum fór hann aftur í sýnatöku og reyndist þá smitaður. 

Svona viðbrögð eru til fyrirmyndar. Að leita strax í sýnatöku þegar þú finnur fyrir einkennum,“ segir Jóhann. 

„Það er þessi snemmgreining sem er svo mikilvæg. Til þess að rakningin beri árangur er mikilvægt að fólk greinist og þess vegna er mikilvægt að fólk leiti sér sýnatöku ef það finnur til einkenna [Covid-19].“

Jóhann telur þetta sanna hve mikilvægt sé að fólk fari í sýnatöku þegar það finnur fyrir einkennum. Hann bendir á að tónleikagestir á tónleikum Víkings Heiðars í Hörpu á föstudagskvöld geti leitað í sýnatöku fram í vikuna en sýnatöku vegna þess er hægt að bóka í gegnum sérstakan hnapp á Heilsuveru.

mbl.is