Skipta deginum á milli Covid og Reykjanesskagans

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var ekki alveg það sem við þurftum,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, spurður um álagið sem fylgir því að fá mögulegt hópsmit kórónuveiru ofan í jarðhræringar á Reykjanesskaga. 

„Við hefðum gjarnan viljað einbeita okkur að Reykjanesskaganum en við erum með fullt af góðu fólki sem er að vinna í þessu. Menn skipta deginum bara á milli Covid og Reykjanesskagans,“ segir Víðir. 

Eins og greint var frá í gær er mögu­legt hópsmit af völd­um breska af­brigðis­ins af Covid-19 er í upp­sigl­ingu eft­ir að tveir greind­ust um helgina utan sótt­kví­ar með hið svo­kallaða breska af­brigði veirunn­ar.

Þá er almannavarnadeildin einnig önnum kafin við að fylgjast með jarðhræringum á Reykjanesskaga sem gætu leitt af sér eldgos. Deildin einblínir helst á svæðið við Fagradalsfjall sem mögulegt gossvæði, ekki á fjögur elds­upp­komu­næm­is­svæði eins og eld­fjalla­fræði- og nátt­úru­vár­hóp­ur Há­skóla Íslands. 

„Þeir eins og aðrir vísindamenn hafa bent á að kvikan er á ferð á ákveðnum stað og það er auðvitað langlíklegast að ef gýs núna þá gjósi þar. Það eru engin ummerki um kviku annars staðar,“ segir Víðir sem bendir á að langlíklegasta staðsetningin fyrir gos sé á kvikugangi við Fagradalsfjall. 

Mikilvægt að horfa á líklegustu sviðsmyndirnar

Íbúafundur var haldinn í Grindavík um helgina þar sem var farið „vel yfir málin“, að sögn Víðis. 

„Síðan er verið að klára rýmingaráætlun fyrir Voga og aðra byggð á Reykjanesi. Fyrst og fremst erum við bara að horfa á atburðarásina sem á sér stað í Fagradalsfjalli. Hún kallar ekki á rýmingu eins og hún lítur út núna. Við fylgjumst bara með og erum með fundi mörgum sinnum á dag með vísindamönnum. Það er stór fundur vísindaráðs eftir hádegi í dag þar sem er farið yfir öll gögn sem er búið að safna síðustu sólarhringa.“

Þá er stöðugt unnið að því að fjölga mælitækjum á svæðinu. Víðir mælir með því að fólk fylgist vel með og horfi til þeirra sviðsmynda sem eru líklegastar. 

„Vísindamenn eru að birta ýmis gögn, að sjálfsögðu, en það er mikilvægt í þessu að við horfum á þær sviðsmyndir sem eru líklegastar hverju sinni og við miðlum því alveg stöðugt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert