Megi velja hvort þeir taki prófin

Sveinbjörn Darri er nemandi í 9. bekk í Salaskóla í …
Sveinbjörn Darri er nemandi í 9. bekk í Salaskóla í Kópavogi.

Nemandi í 9. bekk í Salaskóla í Kópavogi segir prófkerfið fyrir samræmdu prófin mjög lélegt og það gangi ekki að láta nemendur þreyta próf í gegnum kerfið. Hann vill að þátttaka í samræmdu prófunum verði gerð valkvæð eða þau verði felld niður með öllu.

„Til að byrja með komst ég ekki inn í prófið og það voru margir aðrir með mér sem lentu í því sama. Á endanum komumst við inn í prófið og þegar við vorum búin að vera í smástund duttu margir út úr prófinu þrisvar eða fjórum sinnum.“

Svona lýsir Sveinbjörn Darri Matthíasson upplifuninni af próftökunni í gær þegar hann og samnemendur hans áttu að þreyta samræmt próf í íslensku. Hundruð nemenda náðu ekki að klára prófið vegna tæknilegra örðugleika og var samræmdum prófum í ensku og stærðfræði, sem fara áttu fram í dag og á morgun, frestað.

„Þegar ég var búinn með prófið ætlaði ég að skila því en þá datt ég út. Þetta kerfi bara gengur ekki, það er mjög lélegt,“ segir Sveinbjörn.

Erfitt að þurfa að bíða eftir prófunum

Sjálfur sé hann ekki sérstaklega stressaður vegna samræmdu prófanna en hann viti að margir séu það og erfitt geti verið fyrir þá að bíða enn lengur eftir því að þreyta prófin.

„Mér finnst það eigi að vera val hvort það eigi að taka prófið eða ekki eða bara sleppa þeim. Menntaskólarnir skoða þetta ekkert og skólarnir eru búnir að fylgjast með okkur og meta okkur síðan við byrjuðum í skóla og þeir vita alveg hvernig okkur gengur og þurfa ekkert að hafa þetta próf til að sjá það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert