„Ég er ekki sátt við þetta“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir Menntamálastofnun þurfa að útskýra …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir Menntamálastofnun þurfa að útskýra hvað fór úrskeiðis. mbl.is/Hari

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er ósátt við að framkvæmd samræmdra prófa hafi farið úrskeiðis í gær. Hundruð nemenda í 9. bekk í grunnskóla náðu ekki að ljúka samræmdu prófi í íslensku vegna tæknilegra örðugleika og hefur prófum í stærðfræði og ensku verið frestað.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem svona vandræði koma upp í tengslum við samræmd próf í grunnskóla en það gerðist líka árið 2018. Menntamálastofnun hefur sent ráðuneytinu tólf minnisblöð vegna framkvæmdar samræmdra prófa frá árinu 2018.

Hvernig stendur á þessu?

„Þetta er þannig að það komu upp vandræði árið 2018 og við fórum í það að búa til varaáætlun. Í kjölfarið höfum við farið í endurmat á kerfinu og það er skýrsla þess efnis sem liggur fyrir og tillögur,“ útskýrir Lilja og bætir við.

„Hins vegar gekk framkvæmdin ágætlega upp árið 2019 og 2020 og stofnunin þarf að svara fyrir það sem fór úrskeiðis. Ég hef lagt ríka áherslu á að það sé plan B og hún þarf að sýna mér hvers vegna það plan B gekk ekki upp. Ég er ekki sátt við þetta.“

Ekki skortur á fjármagni

Spurð hvort vandræðin megi mögulega rekja til vanfjármögnunar segir Lilja svo ekki vera.

„Gagnvart nemendum þarf þetta að vera fullnægjandi og í lagi. Það er núna mitt hlutverk að fara yfir það. En við fórum yfir þetta með Menntamálastofnun á sínum tíma og þá voru þessar stoðir styrktar og þessi stofnun er vel fjármögnuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka