Óróahviða gengin niður í bili

Jarðskjálftavirknin er undir Fagradalsfjalli.
Jarðskjálftavirknin er undir Fagradalsfjalli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukið viðbragð var sett í gang á Veðurstofu Íslands þegar skjálftavirkni tók að aukast við Fagradalsfjall um klukkan 5:20 í morgun. Að sögn Einars Hjörleifssonar náttúruvársérfræðings var um að ræða litla óróahviðu sem hafi þó að mestu gengið niður milli klukkan hálfsjö og sjö í morgun.

Engir stórir skjálftar urðu í hviðunni en margir litlir og hefur sjálfvirkt kerfi Veðurstofunnar mælt um 930 skjálfta frá miðnætti.

Einar segir að nú sé staðan sú sama og fyrir hviðuna en mat verði lagt á stöðuna í dag. „Við teljum að virknin þarna sé staðbundin syðst í kvikuganginum, og líklega er gangurinn að stækka eða kvika að færast til neðanjarðar,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

„Það eru áfram litlir skjálftar og við fylgjumst vel með stöðunni í vefmyndavélum og á mælum og reynum að greina markverðar breytingar.“

mbl.is