Starfsmaður Hagkaups greindist með Covid

mbl.is/Hjörtur

Starfsmaður Hagkaups í Garðabæ greindist jákvæður fyrir Covid-19 í gærkvöldi. Umræddur starfsmaður vinnur á nóttunni við áfyllingar og var við störf aðfaranótt laugardags og sunnudags sl. helgi.

Hagkaup greinir frá þessu á facebooksíðu sinni. 

Lítið sem ekkert í samskiptum við viðskiptavini

„Starfsmaðurinn var lítið sem ekkert í samskiptum við viðskiptavini, bar grímu við störf sín og fór eftir þeim sóttvarnareglum sem gilda á vinnustaðnum. Umfangsmikil sótthreinsun á öllum helstu snertiflötum í versluninni hefur þegar átt sér stað til að gæta fyllsta öryggis. Þeir starfsmenn sem unnu á sömu vöktum og umræddur starfsmaður um helgina verða sendir í skimum í dag og munu halda sig heima þar til rakningarteymi almannavarna hefur gefið grænt ljós á endurkomu.

Öll viðbrögð við þessari stöðu eru unnin í nánu samstarfi við almannavarnir. Starfsemi verslunarinnar helst óbreytt en vel verður fylgst með stöðu mála og brugðist hratt við ef aðstæður breytast,“ segir í tilkynningunni.  

mbl.is