Fær ekki að vera verjandi

Steinbergur Finnbogason hefur starfað sem lögmaður fyrir Íslendinginn sem um …
Steinbergur Finnbogason hefur starfað sem lögmaður fyrir Íslendinginn sem um ræðir um langt skeið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steinbergur Finnbogason fær ekki að vera verjandi Íslendings sem er sakborningur í morðmálinu í Rauðagerði, samkvæmt ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í morgun.

Skipun hans sem verjanda var afturkölluð á þeim grundvelli að hann kynni að vera kallaður inn sem vitni í málinu. 

Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Steinbergur segir í samtali við mbl.is að hann hyggist vísa ákvörðun héraðsdóms til Landsréttar. Þar hefur hann trú á að einblínt verði á það hvort hægt sé að sýna fram á að hann búi yfir vitneskju um málið sem komin er til áður en hann var löglega skipaður verjandi Íslendingsins í málinu.

„Ég get fullyrt að ég bý ekki yfir neinni slíkri vitneskju eða neinni annarri vitneskju sem gæti verið undanþegin trúnaðarskyldu á nokkurn hátt,“ segir Steinbergur.

Alvarleiki máls skipti ekki máli

Hann segir skýringar Margeirs Sveinssonar, yfirmanns miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á kröfu lögreglunnar ótækar. Margeir hafi ítrekað alvarleika málsins í viðtali í fjölmiðlum í gær. Þar með segir Steinbergur að hann hafi gefið í skyn að reglurnar væru með öðrum hætti hvað varðaði alvarlegri sakamál. „Þetta er eitthvað sem verjandi hefur ekki heyrt áður,“ segir Steinbergur.

Steinbergur hefur starfað sem lögmaður fyrir Íslendinginn sem um ræðir um langt skeið. „Þó að ég byggi yfir einhverri vitneskju sem lögmaður ætti samt eftir að meta hvort það væru upplýsingar sem ég mætti gefa upp. Eina leiðin til þess að ég megi gefa eitthvað upp væri ef þetta væru upplýsingar sem hefðu úrslitaáhrif fyrir málið. Ég fullyrði að svo sé ekki.“

Steinbergur treystir því að Lögmannafélagið muni fara vandlega yfir málið, einkum með tilliti til þess í hve mörgum tilvikum verjendur sem ekki hafa fengið skipun hafa raunverulega verið vitni eða lagt fram vitnisburð sem einhverju máli skipti.

Steinbergur Finnbogason var verjandi Íslendings í Rauðagerðismálinu.
Steinbergur Finnbogason var verjandi Íslendings í Rauðagerðismálinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert