Vill bæta upplifun allra af kerfinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Ljósmynd/mbl.is

Málsmeðferðartími í kynferðisbrotamálum er of langur og kerfið getur verið enn þá skilvirkara til hagsbóta fyrir alla. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Hún nefnir rafræna stjórnsýslu sem eitt af lykilatriðunum í þeim efnum. „Rafræn réttarvörslugátt sem var komið í gagnið fyrir stuttu hefur til dæmis hraðað málsmeðferð innan kerfisins gríðarlega í einstökum málum. Það munu fleiri mál fara þar undir og vonandi bæta upplifun allra af kerfinu en ég held að það sé enn þá hægt að gera betur,“ segir Áslaug Arna.

Níu konur hafa sent kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu á hendur íslenska ríkinu. Konurnar höfðu allar áður kært kynferðisbundið ofbeldi, heimilisofbeldi eða kynbundna áreitni til lögreglu en mál þeirra voru felld niður eftir rannsókn lögreglu og var ákvörðunin staðfest af ríkissaksóknara. 70 til 85% mála af þessum toga eru felld niður áður en þau komast í dómsal.

„Þær hafa þann rétt og það er alltaf gott að fá ábendingar um hvað betur má fara,“ segir Áslaug Arna, spurð út í kærur kvennanna, og bætir við að verið sé að skoða sumar ábendingar þeirra en að aðrar þurfi að athuga betur.

Persónulegra viðmót í kerfinu 

Stígamót tala um kerfisbundið misrétti í þessum málaflokki. Áslaug Arna segir alla vera að leggja mikið á sig til að bæta stöðuna og efla réttarkerfið. Þar hafi kynferðisbrotamálin verið sett sérstaklega fram fyrir og fjármagn hafi verið eyrnamerkt fyrir málaflokkinn sem meðal annars hefur farið til allra lögregluembætta til að geta sinnt þessum málum hraðar.

„Það er verið að gæta að þolendum, veita þeim betri upplýsingar og reynt að vera með persónulegra viðmót í kerfinu okkar. Allt er þetta vonandi til þess fallið að upplifunin að kerfinu sé betri,“ segir hún og nefnir að unnið hafi verið hörðum höndum að því að efla það og stytta málsmeðferðartíma síðan aðgerðaáætlun um bætta meðferð kynferðisbrotamála var samþykkt árið 2019. Rafræn rannsóknaráætlun hefur verið sett á laggirnar sem á að tryggja aukin gæði rannsókna og stytta tímann. Stöðugildum hefur fjölgað vegna rannsókna á kynferðisbrotum og upplýsingagjöf aukin, eins og áður hefur verið nefnt.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Verkefninu hvergi nærri lokið“

Áslaug Arna hefur einnig falið réttarfarsnefnd að semja lagafrumvarp til að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála og er það væntanlegt í samráðsgátt. Frumvarpið er að hluta til byggt á skýrslu Hildar Fjólu Antonsdóttur um réttarstöðu brotaþola. Með frumvarpinu á meðal annars að tryggja sérstaka upplýsingagjöf til brotaþola, tryggja aðgang réttargæslumanns að málsgögnum og tryggja að brotaþoli njóti réttargæslumanns við meðferð málsins á áfrýjunarstigi.

Spurð út í samanburð við Norðurlöndin varðandi málsmeðferðartímann segist ráðherrann ekki þekkja þróunina þar vel en nefnir að hann sé töluvert misjafn á milli landa og brotum. „Við höfum verið framarlega í allri þessari vinnu, bæði varðandi kynferðislega friðhelgi og við höfum tekið upp ákvæði eins og umsáturseinelti þar sem við lítum til nokkurra landa í kringum okkur,“ greinir hún frá.

„Síðustu árin hefur verið unnið eftir stífri aðgerðaáætlun er varðar bæði kynferðisbrot og heimilisofbeldi en verkefninu er hvergi nærri lokið. Það þarf áfram að vinna að úrbótum og það er það sem við erum að gera og ég mun ekki skorast undir ábyrgð í þeim verkefnum,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert