Fara á hótel til að flýja skjálftana

Hótel Stracta á Hellu.
Hótel Stracta á Hellu. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hefur verið rætt um jarðskjálftavirknina á Reykjanesskaga undanfarið sem raunverulega ógn við byggð á svæðinu, en sannarlega hafa einhverjir íbúar tjáð sig um hve þreytandi það geti verið að vakna ítrekað við skjálfta á næturnar.

Ein lausn við því er að flýja af hólmi, eins og nokkur fjöldi virðist þegar hafa gert. „Við ætluðum bara að vera viss um að sofa í nótt,“ er þannig haft eftir hjónum sem bókuðu sér gistingu á Hótel Stracta á Hellu um helgina.

Hreiðar Hermannsson, eigandi hótelsins, segir ívið hærra hlutfall hótelgesta koma frá Suðurnesjum en venjulega. „Maður hefur tekið eftir þessu bæði núna um helgina og síðustu helgi,“ segir Hreiðar. 

Hreiðar Hermannsson hótelstjóri.
Hreiðar Hermannsson hótelstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

200 í gistingu um helgina

Hann segir það áhrifaríka ráðstöfun hjá fólkinu, enda verði skjálftanna varla vart svo austarlega í sveitinni. Á Stracta hristist ekki neitt, ólíkt því sem íbúar nærri skjálftasvæðinu hafa fengið að kynnast, þegar jarðskjálftar af stærðinni 4,6 mælast klukkan 1.43 um nótt eða skjálftar af stærðinni 5 mælast klukkan 7.43 að morgni.

Um 200 manns voru í gistingu á Stracta yfir helgina og koma gestirnir hvaðanæva af landinu. Það minnkar verulega tapið að sögn Hreiðars að fá inn slíka umferð um helgar. 

Hreiðar stendur annars í stórræðum við uppbyggingu nýs 200 herbergja hótels við Orrustustaði í Skaftárhreppi, sem verður stærsti vinnustaður sveitarfélagsins þegar starfsemi hefst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert