Svör verði „kreist fram“ eftir sjö vikna bið

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjö vikur eru liðnar síðan velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir minnisblaði frá heilbrigðisráðuneytinu vegna ákvörðunar heilbrigðisráðherra um að færa rannsóknir á leghálssýnum til danskrar rannsóknarstofu. Einnig var óskað eftir innihaldi samninganna við dönsku aðilana.

Undir liðnum störf þingsins óskað Helga Vala eftir aðstoð forseta Alþingis við að „kreista fram“ svörin, því þau hafi ekki komið þrátt fyrir ítrekaðar óskir nefndarinnar.

Helga Vala minntist á frétt Vísis um að Landspítalinn hafi verið búinn að gefa heilbrigðisráðuneytinu jákvætt svar við að taka við umræddum leghálssýnarannsóknum áður en ákveðið var að færa þær til Danmerkur.

„Af þeim fjölmörgu sérfræðingum sem hafa tjáð sig um málið hafa aðeins tveir mælt með því að þessar rannsóknir séu fluttar úr landi, þar af annar sem leiðir þetta starf fyrir heilbrigðisráðuneytið,“ sagði hún.

„Hvers vegna íslensk stjórnvöld ákváðu að sniðganga íslenskt rannsóknarfólk og þann tækjakost sem við höfum yfir að ráða og færa þessi verkefni út fyrir landsteinana er með öllu óskiljanleg,“ bætti hún við.

mbl.is
Loka