Rúmlega 20 stiga hiti á Austurlandi

Reyðarfjörður eða Tenerife?
Reyðarfjörður eða Tenerife? Ljósmynd/Stefán Arason

Áfram er bongóblíða á Austfjörðum og hefur hiti farið yfir 20 stig á tveimur stöðum, auk þess sem hann hefur daðrað við 20 stigin á tveimur öðrum mælistöðvum. Hæst hefur hitinn farið í 20,4 stig á Dalatanga og 20,2 stig á Neskaupstað.

Ekki munar nema 0,1 stigi að blíðan við Dalatanga jafni hitamet marsmánaðar en hæst hafa mælst 20,5 stig í Kvískerjum í Öræfum fyrir níu árum. 

Um hitamet daganna 11. til 20. mars er að ræða en fyrra metið var sett við bæinn Kollaleiru í Reyðarfirði í  gær. Þar var áfram hlýtt fyrri hluta dags og mældist þar hæst 19,6 stiga hiti í dag. Sama hitastig var einnig á Eskifirði.

„Það er byrjað að kólna. Maður finnur það alveg, þetta er dottið niður í 16 stig,“ segir Stefán Arason, íbúi á Reyðarfirði við mbl.is, þegar hann er spurður um veðurblíðuna á Austfjörðum.

Hann bætir því við að veðrið sé alltaf langbest á austurhluta landsins og betra sé að njóta sumarsins þar í stað rignarsumra í borginni.

Samkvæmt veðurspám er síðasti dagur mars-sumars á Austfjörðum í dag en á morgun kólnar, þótt hitatölur verði áfram rauðar. Þær verða bara ekki Tenerife-rauðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert