Eldtungur leika um Geldingadal

Gosstrókarnir hafa hlaðið upp hrauni í kringum sig.
Gosstrókarnir hafa hlaðið upp hrauni í kringum sig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is flugu í morgun að gosinu sem upp er komið í Fagradalsfjalli. Tekið var á loft frá Reykjavíkurflugvelli rétt fyrir klukkan níu og stefnan tekin beint í vestsuðvestur, yfir Skerjafjörðinn, Álftanes og Hafnarfjörð.

Þegar höfuðborgarsvæðinu sleppir fljúgum við yfir fjölda gamalla hrauna, sem áður runnu eldglóandi en standa nú sem steinrunnin – hluti af landslaginu.

Markmiðið er að berja augum það nýjasta í þeirra röðum, hraun sem vellur upp úr sprungu sem opnaðist í hlíðum Geldingadals.

Reykjarmökkurinn leynir sér ekki handan Keilis.

Við fljúgum yfir hrygg og sjáum undir eins hvar eldarnir teygja tungur sínar upp úr svörtu hrauninu sem þeir skópu sjálfir.

Hraunið slettist upp úr strókunum.
Hraunið slettist upp úr strókunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hiti frá hrauninu

Ljósmyndarinn opnar glugga sín megin til að ná myndum af eldunum. Á svipstundu streymir mikill hiti inn í þyrluna frá hrauninu, sem þó virðist enn í góðri fjarlægð.

Eftir nokkra hringi í kringum gosstöðvarnar er ákveðið að lenda þar spölkorn frá.

Sjá mátti litla hraunfossa í strókunum.
Sjá mátti litla hraunfossa í strókunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamaður og ljósmyndari stökkva út, og flugmaður á eftir. Sýnin er stórkostleg. Svipar vissulega til upptaka af fyrri eldgosum en þær standast þó engan samanburð þegar maður stendur frammi fyrir þessum ógnarkröftum.

Þyrlunni var lent nærri gosstöðvunum.
Þyrlunni var lent nærri gosstöðvunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skyndilega snýst vindáttin. Reykurinn liðast enn fjarri okkur en upp gýs lykt sem minnir á hvers lags eitur og dauði hefur fylgt eldsumbrotum allt frá því land var fyrst numið. Við hröðum okkur inn í þyrluna og fljúgum á brott.

Hrauntaumarnir renna niður í Geldingadal úr austurhlíðum dalsins.
Hrauntaumarnir renna niður í Geldingadal úr austurhlíðum dalsins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina