„Fólk var mjög reitt yfir þessu“

Fólk á ferli við eldgosið.
Fólk á ferli við eldgosið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn þeirra sem gengu að gosstöðvunum í gær er ósáttur við að hafa þurft að ganga eins langa leið og raun bar vitni og að engar merkingar hafi verið til staðar. Einnig gagnrýnir hann að engar upplýsingar hafi verið fáanlegar um hversu langan tíma gangan tæki.

Ólafur Sveinn Guðmundsson lagði af stað um fjögurleytið í gær ásamt konu sinni. Þau eru vant göngufólk og voru vel útbúin. Suðurstrandarvegur við Þórkötlustaði var lokaður. Í stað þess að aka um hann og ganga síðan í klukkutíma að gosstöðvunum var gangan vel á þriðju klukkustund og erfið í þokkabót.

Þyrla flýgur yfir gossvæðinu.
Þyrla flýgur yfir gossvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir fréttaflutning af gosinu hafa verið einhæfan. Þangað hafi ekki bara álpast villuráfandi einstaklingar sem ekkert viti í sinn haus. „Ég held að það hafi komið öllum á óvart hvað þetta var langt að fara, engar upplýsingar,“ segir Ólafur Sveinn og bætir við að fólk hafi almennt verið vel klætt.

Hann segist hafa leitað á netinu án árangurs að upplýsingum um hversu langan tíma taki að fara að gosstöðvunum. Spurður segist hann þó ekki hafa skoðað síðu almannavarna. Fólk á staðnum, þar á meðal björgunarsveitarmenn, hafi talað um allt frá tveggja til sex tíma göngu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að á göngunni niður frá gosstöðvunum á bakaleiðinni þurfi að beygja út í hraunið á ákveðnum stað. Myrkur var skollið á og átti fólk erfitt með að fylgja slóðanum sem hafði myndast og fara rétta leið, þrátt fyrir að vera með ljós. Betra hefði verið að setja stiku þarna til að benda fólki á réttu leiðina. Fyrir vikið villtist fólk úti í hrauninu. „Fólk var mjög reitt yfir þessu,“ segir hann.

„Mér ofbauð þetta. Það er valdbeiting að halda fólki frá á stórfurðulegan hátt, sem gerir það að verkum að fólk verði illa úti, slasi sig og misstígi sig í hrauninu. Þetta er valdahroki,“ segir hann.

Aðspurður hvernig hafi verið að sjá eldgosið segir hann að það hafi verið magnað. „Ég held að flestir okkar hafi verið orðnir svo þreyttir þegar þeir komu upp að þeir settust og fóru ekkert mikið meira,“ segir hann og tekur fram að fólk hafi hagað sér vel við gosstöðvarnar, enda beri flestir virðingu fyrir náttúrunni.

Ólafur og konan hans voru komin aftur í bílinn sinn um miðnætti og segir hann að fyrir vant fólk sé þetta um dagleið miðað við þær lokanir sem voru í gangi í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert