Gengur í berhögg við EES-samninginn

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Boðaðar útflutningshömlur á vörum frá Evrópusambandinu til EFTA-ríkjanna ganga í berhögg við EES-samninginn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætis- og utanríkisráðuneytinu.

Þar segir enn fremur að ekki sé ástæða til að ætla að nýrri reglugerð ESB verði beitt gegn Íslandi né að hún hafi einhver áhrif á afhendingar bóluefna til Íslands, en forsætisráðuneytið segir að Katrín Jakobsdóttir hafi í dag fengið skýr skilaboð frá Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, þess efnis.

Fyrr í kvöld sendi stjórnarráðið út tilkynningu þar sem fram kom að hömlurnar myndu ekki raska afhendingu bóluefna.

Sendiherra kallaður í ráðuneytið

Vegna málsins hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur rætt við utanríkisráðherra Noregs til að stilla saman strengi og eins ræddi hann við utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar, sem er í ESB, og kom sjónarmiðum Íslands skýrt til skila. 

Hann mun einnig eiga fleiri fundi með evrópskum ráðamönnum á morgun.

Jafnframt var sendiherra ESB á Íslandi kallaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í dag og reglugerðinni mótmælt harðlega, enda gengi hún þvert gegn EES-samningnum. Þá var mótmælum ennfremur komið á framfæri við framkvæmdastjórn ESB af sendiherra Íslands í Brussel.

Reglugerðinni verði breytt

Í tilkynningunni segir einnig að íslensk stjórnvöld hafi komið þessum skilaboðum skýrt á framfæri við framkvæmdastjórn ESB í dag og lagt áherslu á að reglugerðinni verði breytt og Ísland verði formlega undanþegið útflutningshömlum í samræmi við EES-samninginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina