Vísbendingar um að veiran sé á ferðinni

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis alamannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis alamannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Öll sautján kórónuveirusmitin sem greindust í gær hafa verið rakin til fyrri smita. Nú heyrir það til undantekninga ef fólk greinist innanlands með önnur afbrigði kórónuveirunnar en hið breska. Einstaklingar sem hafa greinst smitaðir undanfarna daga hafa sumir hverjir sótt mannmarga viðburði.

Þetta segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.

Þó opinberar tölur greini frá því að þrír hafi greinst smitaðir utan sóttkvíar í gær segir Jóhann að helst séu áhyggjur af einu þeirra smita.

„Ef smitin [sem greindust utan sóttkvíar] eru flokkuð eftir áhættu þá er einn rauðmerktur. Mögulega eru mótefnaskýringar hjá hinum sem eiga eftir að koma í ljós,“ segir Jóhann.

Viðbúið að smit komi úr sóttkví

Flest smitanna sem greindust í gær greindust á meðal nemenda Laugarnesskóla. Hin smitin hafa tengsl við landamærasmit.

„Það var farið í umfangsmikla skimun í Laugarnesskóla. Við þurfum aðeins að sjá hvað dagurinn gefur varðandi það. Þá kannski sjáum við hvort það verði einhver dreifing. Auðvitað eru rosalega margir þarna undir, bæði skólar, frístund, íþróttir og fjölskyldur. Það eru rosalega margir í sóttkví vegna þessa og það er alltaf viðbúið að það komi einhver smit úr sóttkvínni,“ segir Jóhann.

Spurður hvort smit hjá kennara í Laugarnesskóla tengist smitum á meðal nemenda segir Jóhann:

„Það er þannig að þegar það myndast svona hópar að sá sem greinist fyrstur er ekki endilega sá sem er fyrstur með veiruna. Það getur verið sá sem greinist síðastur hafi verið upphafið. Það er flækjustigið sem við höfum oft séð.“

Enn er upphaflegur uppruni smitanna í Laugarnesskóla óþekktur.  

„Það segir okkur að það geta verið einhverjir aðrir óþekktir hópar. Það er það sem við óttumst,“ segir Jóhann.

„Það eru vísbendingar um að það sé einhver veira á ferðinni. Ef við fengjum núna einhvern annan skóla í öðrum hverfi úr þessum sama óþekkta uppruna þá er þetta fljótt að stefna í vandræði.“

Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á …
Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að störfum hjá smitrakningateyminu. Með henni á myndinni er Jóhann Björn Skúlason. Ljósmynd/Lögreglan

Óvenju mörg smit á meðal barna

Eins og áður segir eru börn stór hluti af þeim sem hafa greinst smituð síðustu daga. Áður hefur verið talið ólíklegra að börn smitist af veirunni en fullorðnir. Spurður hvort um óvenju mörg smit á meðal barna sé að ræða segir Jóhann:

„Við höfum séð börn smitast áður en okkur finnst samt óvenju mörg koma núna úr þessu.“

Tveir hafa greinst smitaðir af suðurafríska afbrigði kórónuveirunnar hérlendis. Í báðum tilvikum var um landamærasmit að ræða. Hið sama er ekki hægt að segja um breska afbrigðið, en það virðist vera orðið nokkuð útbreitt. „Það telst til undantekninga ef það er ekki breska afbrigðið í dag,“ segir Jóhann.

Skiptir miklu máli að fólk mæti í sýnatöku

Höfðu hinir smituðu sótt mannmarga viðburði?

„Samfélagið er tiltölulega opið eins og það er núna. Þá er fólk eðlilega að fara víða. Þess vegna fara svolítið margir í sóttkví núna. Núna væri hyggilegt fyrir fólk að huga aðeins að því hverja þau umgangast og þrengja aðeins hópinn. Grundvallaratriðið er að við þurfum að fá jákvæð sýni til þess að geta brugðist við. Þannig að við viljum að sem flestir fari í sýnatöku ef það eru minnstu einkenni,“ segir Jóhann.

Spurður hvort einhver smit hafi komið upp í líkamsrækt segir hann að engin smit hafi komið upp þar undanfarið. Í einhverjum tilvikum hafi smitaðir sótt tíma í líkamsræktarstöðvum en ekki smitað út frá sér þar.

Jóhann ítrekar að lokum mikilvægi þess að fólk fari í sýnatöku ef það finnur fyrir einkennum Covid-19.

„Það skiptir okkur svo miklu máli að ná að grípa inn í snemma. Þá höfum við möguleika á því að halda þessu niðri.“

mbl.is