Fjórir af tíu skipverjum útskrifaðir

Taurus Confidence er í álvershöfninni við Mjóeyri.
Taurus Confidence er í álvershöfninni við Mjóeyri. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Líðan skipverja um borð í súrálsskipinu í Mjóeyrarhöfn þróast í rétta átt. Fjórir af þeim tíu sem smitaðir voru um borð við komu skipsins 20. mars síðastliðinn voru útskrifaðir í morgun. Fimm eru enn í einangrun um borð en vonir standa til að þeir verði útskrifaðir einnig fljótlega.

Þetta kemur fram í facebook-færslu lögreglunnar á Austurlandi.

Sá tíundi sem fluttur var talsvert veikur á Landspítala 28. mars útskrifaðist fyrir tveimur dögum á sóttvarnahús í Reykjavík. Hann nýtur eftirlits starfsfólks Covid-deildar Landspítala. Skráðum einstaklingum í einangrun í fjórðungnum ætti því að óbreyttu fara nokkuð hratt fækkandi næstu daga. Þá eru líkur á að súrálsskipið geti haldið til hafs fljótlega.

Starfsfólk HSA sem vitjað hefur áhafnar súrálsskipsins reglulega bar í gær með sér páskaegg um borð fyrir hvern og einn þeirra. Það var gert að frumkvæði íbúa á Reyðarfirði og með styrk Alcoa Fjarðaáls sem vildu þannig sýna vinarþel þeim til handa og samkennd.

Opna sóttvarnahús á Hallormsstað

Unnið er að opnun sóttvarnahúss á Hótel Hallormsstað fyrir komu Norrænu á þriðjudag. Gert er ráð fyrir tuttugu og sjö farþegum með ferjunni. Að líkindum þurfa sjö þeirra að dvelja í sóttvarnahúsi í fimm daga meðan beðið er niðurstöðu tveggja skimana í samræmi við reglur er tóku gildi 1. apríl. Aðrir farþegar fara í hefðbundna skimun við komu, þá í fimm daga sóttkví og skimun að nýju.

mbl.is