„Afrakstur samtakamáttar samfélagsins“

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að staðan á Landspítalanum vegna viðbúnaðar við kórónuveirufaraldrinum sé góð. Enginn hafi legið inni vegna Covid-19 undanfarið og slíkir sjúklingar ekki legið inni á gjörgæslu síðan í nóvember. 

Þetta kemur fram í pistli sem Páll birtir á vef Landspítalans. Hann bendir þar á að í vikunni hafi viðbragðsstjórn og farsóttanefnd ákveðið að færa spítalann af hættustigi á óvissustig vegna Covid-19. Hann segir enn fremur, að göngudeild Covid-19 hafi gengið vel að ná utan um þá sem smitast hafa þótt sjúklingum hafi fjölgað.

„Staðan á spítalanum endurspeglar stöðuna í samfélaginu, er í raun afrakstur samtakamáttar samfélagsins sem er staðráðið í að hafa betur í baráttunni við veiruna.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bendir einnig á, að nú muni breska afbrigði veirunnar vera mest áberandi meðal smitaðra og reynsla erlendis frá hefði bent til þess að búast mætti við fleiri innlögnum hjá okkur en í fyrri bylgjum faraldursins.

„Blessunarlega hefur það ekki orðið og líklega er skýringanna að leita í ýmsum þáttum. Benda má á aldursdreifingu hinna smituðu, fleira yngra fólk sem ræður frekar við sýkinguna án spítalavistar. Það á hins vegar líka við erlendis þar sem breska afbrigðið ræður ríkjum en þar hefur ekki náðst utan um útbreiðsluna með smitrakningu og sóttvörnum, sem er lykilþáttur. Annað atriði sem kann að hjálpa er hækkandi bólusetningarhlutfall elstu aldurshópa. Enn ein skýring sem miklu kann að skipta er einstök nálgun okkar á Landspítala á þennan sjúkdóm með göngudeild Covid-19.“

Staðan á spítalanum endurspeglar stöðuna í samfélaginu, er í raun …
Staðan á spítalanum endurspeglar stöðuna í samfélaginu, er í raun afrakstur samtakamáttar samfélagsins sem er staðráðið í að hafa betur í baráttunni við veiruna, segir Páll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll segir að öllum sem greinist með smit á landinu (hvort heldur sé innan lands eða á landamærum) sé fylgt náið eftir með reglulegum símtölum lækna og hjúkrunarfræðinga. Með þeim hætti sé hægt að fylgjast vel með og spítalinn er fljótur að átta sig á ef hallar undan fæti.

„Þá getum við kallað sjúklinginn inn til meðferðar á göngudeildinni sjálfri og stutt hann til heimferðar samdægurs. Ef þörf reynist á innlögn er hún auðsótt og árangur meðferðar sem beitt er hefur verið góður. Þetta er einstakur ferill í meðferð Covid-19-smitaðra og líkur má leiða að því að skýringa á minni innlagnaþörf nú sem og í fyrri bylgjum faraldursins hér miðað við annars staðar sé meðal annars að leita hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert